7 myndir sem minna þig á að líf þitt er ekki slæmt

Öll eigum við okkar slæmu daga, en það eru til ákveðnar myndir sem gera okkur grein fyrir því að okkar vandamál eru ansi léttvæg (oftast nær!). Athugið að myndirnar eru ekki í sérstakri röð – mjög vægir spoilerar gætu verið í listanum.

The Diving Bell and the Butterfly

Hreint út sagt mögnuð sannsöguleg mynd sem fjallar um ritstjóra Elle tímaritsins, sem fær hjartaáfall og lamast algerlega frá toppi til táar…nema í vinstra auganu. Hann skrifaði bók um líf sitt með því að nota þetta eina auga sitt, en lést síðan tveimur árum síðar.

Requiem for a Dream

Myndinni er skipt eftir árstíðum og fylgist með þremur sögum sem fléttast saman. Ótrúlega þunglynd mynd sem einblínir á fíkn mannsins, hvort sem það er eiturlyfjafíkn eða megrunarpillur. Ofan á allt saman bætist við hórdómur og önnur geðveiki. Algert meistaraverk og er á topplista margra kvikmyndaunnenda.

Boogie Nights

Að sjálfsögðu er það ekki beint slæmt mál að vera stór klámstjarna, en myndin fjallar í raun um misaðlaðandi og misheppnaða einstaklinga með stórar guðsgjafir sem tekst ekki nota neitt annað en kynþokka sinn til að koma sér áfram í lífinu. Sem fyrr sagði, þá er það ekki beint slæmt mál, en þar sem allir enda á því að missa forræði yfir börnunum sínum, drepa sjálfa sig eða gerast eiturlyfjafíklar þá er maður feginn að vera ekki einn af þeim.

Apocalypse Now

Að vera sendur af ríkinu í algera sjálfsmorðsför fær mann til að vera feginn því að Ísland sé herlaust land. Sigling niður á sem er sneisafull af víetnömskum hermönnum, og söguþráður sem felur í sér gjörsamlega vitstola einstaklinga fá mann til að líta á það sem maður á með öðrum augum.

Lilja 4-ever

Mansal er ekkert grín eins og þessi mynd sýnir á blákaldan og hráan hátt. Lilja er yfirgefin af móður sinni og er föst ein í Austur-Evrópu. Hún verður að selja líkama sinn til að lifa af, besti vinur hennar deyr og kærasti hennar framselur hana til vændishrings í Svíþjóð.

Rescue Dawn

Christian Bale leikur bandarískan orrustuflugmann sem er fastur í fangabúðum í Asíu. Hann horfir upp á vini sína deyja og er sjálfur tæpur á því að missa vitið. Hann verður að leggja ótrúlega hluti á sig til að reyna að sleppa út.

Funny Games

Mynd sem ekki er enn búið að frumsýna á Íslandi og því ætla ég ekki að segja of mikið frá söguþræðinum. Fjölskylda lendir í hremmingum ungra geðsjúkra manna sem finnst ekkert betra en að pynta þau á eins marga vegu og þeir geta hugsað sér.

Er líf þitt jafnslæmt og í þessum myndum ? Aðrar myndir sem eiga svosem sæti á þessum lista eru City of God, Dancer in the Dark og Irreversible. Veistu um fleiri ? Láttu okkur vita með því að senda póst á kvikmyndir@kvikmyndir.is og við bætum þeim við listann!

Tengdar fréttir

22.8.2008        Sex myndir sem settu stúdíóin á hausinn!