Stórfengleg kvikmynd sem er óviðjafnanleg á allan hátt. Segja má með sanni að enginn kvikmyndagerðarmaður hafi komið jafn rækilega á óvart á árinu 1997 og hinn þrítugi leikstjóri og handritshöfundur Paul Thomas Anderson þegar hann sendi frá sér Boogie Nights. Gagnrýnendur hreinlega kepptust við að ljúka lofsorði á þessa frábæru mynd og sem dæmi um það má nefna að tveir af bestu kvikmyndagagnrýnendum heims, Roger Ebert og Leonard Maltin, hafa gefið henni úrvalsdóma. Myndin var síðan hlaðin verðlaunum hjá hinum ýmsu kvikmyndasamtökum í ársuppgjörinu fyrir 1997 og kórónaði það með þremur óskarsverðlaunatilnefningum sama ár; fyrir besta leik í aukahlutverki karla og kvenna (Burt Reynolds og Julianne Moore) og fyrir besta handrit ársins (Anderson). Myndin hefst um miðjan áttunda áratuginn. Eddie Adams (Mark Wahlberg) er 17 ára gamall drengur sem vonast eftir að eitthvað verði úr sér. Lukkan gengur í lið með honum þegar klámmyndakóngurinn James Horner (Reynolds) sér hann inni á diskó-bar og áttar sig samstundis á því að hér er kominn "talent" sem á eftir að gera hann ríkan. Eddie er nefnilega óvenjulega stórvaxinn á þann hátt sem hentar til að gera úrvals klámmyndir. Það líður líka ekki á löngu uns Eddie, (undir nafninu Dirk Diggler), er búinn að skapa sér frægð í bransanum í hlutverki leyniþjónustumannsins Brock Landers, eins konar James Bond, sem ferðast um heiminn og leggur konur á hægri og vinstri. Á mjög skömmum tíma er Eddie kominn á kaf í hið ljúfa líf sem hinni skyndilegu frægð fylgir. En velgengnin hefur einnig önnur og óæskilegri áhrif á hinn unga mann og með tímanum sekkur hann sífellt dýpra í óreglu og eiturlyf og endar að lokum í blindgötu. Stórfengleg kvikmynd sem er einstök á allan hátt. Ég gef Boogie Nights þrjár og hálfa stjörnu og mæli eindregið með henni. Hún er gott sýnishorn á því hvernig frægðin getur farið með fólk. Alls ekki missa af þessu meistaraverki og ekki missa af endurkomu gamla jaxlsins Burt Reynolds, sem flestallir voru búnir að afskrifa á miðjum tíunda áratugnum, hann fer á kostum. Semsagt; ómissandi mynd
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei