Tvenn Óskarsverðlaun dugðu fyrir 5% af launum karlleikarans

Ætla mætti að með tvenn Óskarsverðlaun á ferilskránni, væri leikur einn að fá vel launað starf í Hollywood.  En ef maður er kona, þá er ekkert endilega samasammerki þar á milli.

Hilary Swank, 42 ára, sem vann Óskarinn árið 1999 fyrir leik sinn í Boys Don’t Cry og aftur árið 2004 fyrir Million Dollar Baby, sagði frá því í spjallþættinum Chelsea á Netflix, að henni hafi aðeins verið boðin 5% af því sem heitum karlleikara var boðið fyrir leik í sömu kvikmynd.

swank

„Svo vinn ég önnur Óskarsverðlaun mín, og stuttu seinna fæ ég boð um hlutverk,“ sagði Swank. „En karlleikarinn hafði ekki náð neinum viðlíka árangri og ég, en hafði leikið í mynd þar sem hann var heitur. Og honum voru boðnar 10 milljónir Bandaríkjadala, en mér voru boðnir 500 þúsund dalir. Það er sannleikurinn. Staðreynd málsins.“

Öðrum gestum þáttarins, Ava DuVernay, Connie Britton, ungfrú Bandaríkin Deshauna Barber, og þáttastjórnandanum Chelsea Handler, hryllti við þessum upplýsingum.

Það kom ekki á óvart að Swank afþakkaði hlutverkið.

„Þeir fóru svo og fundu nýliða sem tók hlutverkið að sér fyrir 50 þúsund dali. Þannig að þeir spöruðu 450 þúsund dali, og gátu þá mögulega notað þá peninga til að borga karlleikaranum bónus,“ grínaðist Swank.

Leikkonan sagði einnig frá því í þættinum að þegar hún var 24 ára og var að leika í Boys Don´t Cry, þá þénaði hún aðeins 3.000 dali, sem nægði ekki einu sinni fyrir sjúkratryggingu.

„Ég þénaði 3.000 dali. Til að fá sjúkratryggingu, þá þarftu að þéna fimm þúsund dali,“ bætti Swank við.

Hægt er að horfa á viðtalið við Swank hér fyrir neðan: