Spielberg setur Móses á dagskrá

Steven Spielberg er kominn á sjötugsaldurinn, en virðist ekkert ætla að fara að hægja á. Báðar myndir hans frá árinu 2011, The Adventures of Tintin og War Horse fengu prýðisviðtökur, og á þessu ári stendur til að taka upp tvær í viðbót. Fyrst er það Lincoln, um síðustu mánuði Abraham Lincolns, og næst er það Robopocalypse. Titillinn þar segir væntanlega allt sem segja þarf. Í einhvern tíma hafa Warners svo verið að reyna að lokka meistarann að fyrirhugaðri mynd byggðri á ævi biblíuhetjunnar Móses, og nú lítur út fyrir að sú mynd fari á dagskrá kappans árið 2013.

Myndin nefnist Gods and Kings, og á að fylgja Móses allt frá ættleiðingu hans inn í fjölskyldu Faraós og væntanlega til andláts hans 120 árum síðar þegar þjóð hans var loksins við það að komast að fyrirheitna landinu. Það sem kemur á óvart er að sagt er að myndin verði í stíl við Braveheart og Saving Private Ryan. Einhver lét eftir sér tilvitnunina: „það hafa verið gerðar glansútgáfur af sögu Móses, en þessi verður alvöru stríðssaga“. Þannig að ekki er um beina endurgerð The Ten Commandments með Charlton Heston að ræða. Handritið er eftir þá Stuart Hazeldine (hin væntanlega Paradise Lost) and Michael Green (Green Lantern). Þá er það tekið fram, að myndin verði ekki tekinn upp í þrívídd, enda hefur Spielberg sagst ætla að taka leiknar myndir upp á filmu allt þar til síðasta framköllunarstofan lokar. Þannig að Rauðahafið mun bara klofna í gamaldags tvívídd.

Þó viðræður séu komnar langt, er samningurinn er ekki kominn á borðið. En hvernig myndi þetta leggjast í menn? Er ekki hálf kjánalegt að ætla sér að gera einhverja dimma og ofbeldisfulla útgáfu af biblíusögunni um Móses? Spielberg veit svosem yfirleitt hvað hann er að gera…