Söluvirði Casablanca píanós veldur vonbrigðum

Nýlega sögðum við frá því að þeir sem væru nógu loðnir um lófana gætu keypt sér sögufrægan leikmun úr kvikmyndinni Casablanca til að hafa hjá sér heima í stofu.

Um var að ræða grænt píanó úr myndinni Casablanca, sem bjóða átti upp hjá Sotheby´s uppboðshúsinu í New York. Nú er  uppboðinu lokið, og seldist hljóðfærið á aðeins rúma 600 þúsund Bandaríkjadali, en menn voru búnir að gera sér vonir um að fá fyrir það eina milljón dala, eða meira.

Það var leikarinn og söngvarinn Dooley Wilson sem lék lagið As Time Goes By á píanóið í myndinni. Píanóið er grænt að lit, en að sjálfsögðu sér enginn hvernig píanóið er á litinn í myndinni sjálfri, þar sem hún er í svart-hvítu.

Humphrey Bogart og Ingrid Bergman leika aðalhlutverkin í myndinni, en senurnar með píanóinu eru endurlit þeirra aftur í tímann. Meðal sögufrægra setninga sem Bergman segir við píanóið er: „Play it, Sam. Play ‘As Time Goes By.'“

Casablanca gerist í Marokkó í seinni heimsstyrjöldinni. Myndin vann þrenn Óskarsverðlaun, þar á meðal fyrir bestu mynd, besta handrit og bestu leikstjórn Michael Curtiz.

Uppboðsfyrirtækið gefur ekki upp hver kaupandinn var.

Hér að neðan má sjá leikið á píanóið í myndinni m.a.