Eitt rómantískasta píanó kvikmyndasögunnar til sölu

Einn rómantískasti kvikmyndaleikmunur allra tíma, og á sama tíma eitt rómantískasta píanó kvikmyndasögunnar, píanóið úr bíómyndinni Casablanca, verður boðið upp hjá uppboðsfyrirtækinu Sotheby´s í New York nú í desember.

Í Casablanca syngur persónan Sam, sem leikinn er af Dooley Wilson, lagið As Times Goes By á þetta píanó í rómantísku endurliti þeirra Rick, sem leikinn er af Humphrey Bogart, og Isla, sem leikin er af Ingrid Bergmann.

Uppboðið fer fram þann 14. desember nk. fyrir þá sem eru áhugasamir, en uppboðið er haldið í tilefni af 70 ára afmæli myndarinnar.

Sjáðu píanóið hér að neðan ásamt atriðinu úr myndinni þar sem Sam leikur á píanóið:

David Redden hjá Sotheby´s telur að um 800 þúsund Bandaríkjadalir fáist fyrir píanóið, eða rúmar 100 milljónir íslenskra króna.

Píanóið er grænt og gult á litinn og fremur smágert, en útlitið kemur á óvart, skiljanlega, þar sem myndin er í svart-hvítu.

Píanóið var áður boðið upp hjá Sotheby´s árið 1988 og keypt þá af japönskum safnara. Samkvæmt Sotheby´s á þeim tíma þá var verðið þá, eitt það hæsta sem fengist hafði fyrir leikmun úr bíómynd.