Smith feðgar verstu leikarar ársins

Samansafns-gamanmyndin „Movie 43,“sem bæði floppaði í miðasölunni í Bandaríkjunum á síðasta ári og var jörðuð af gagnrýnendum, og er með stórleikara eins og Hugh Jackman, Kate Winslet og Halle Berry í helstu hlutverkum var í gær valin versta mynd síðasta árs á 34. Razzie verðlaunahátíðinni í Hollywood.

movie 43

Razzie verðlaunahátíðin hefur grínundirtón, en þar eru veittar viðurkenningar ár hvert fyrir verstu frammistöðu í bíóheiminum, en hátíðin er alltaf haldin daginn fyrir Óskarsverðlaunahátíðina.

Myndin fékk einnig viðurkenningu fyrir verstu leikstjórn og versta handrit, en 13 leikstjórar komu að myndinni og 19 handritshöfundar, enda er myndin samansafn margra stuttra mynda.

Dýrasta flopp allra tíma, vísindaskáldskapurinn After Earth, vann til þriggja Razzie verðlauna. Jaden Smith var valinn versti leikari fyrir leik sinn í myndinni og faðir hans Will Smith var valinn versti meðleikari.

Þá fengu þeir feðgar sérstök verðlaun fyrir versta samleik.