Pyntingarnar í Trance trufluðu McAvoy

Tökur á pyntingaatriðum í spennumyndinni Trance í leikstjórn Danny Boyle fóru illa í aðalleikarann James McAvoy.

Í myndinni leikur McAvoy uppboðshaldara á listmunum sem missir minnið eftir að rán er framið. Hann segir að gróf ofbeldisatriði trufli hann venjulega lítið en pyntingarnar í þessari ollu honum hugarangri.

„Þær höfðu dálítil áhrif á mig. Pyntingarnar náðu til mín. Venjulega hefur þetta ekki áhrif á mig og mér finnst ekkert truflandi að vera þakinn blóði í myndunum mínum og að láta lemja mig í klessu en eftir nokkra daga tökur á þessari leið mér hálf illa,“ sagði McAvoy við BANG Showbiz.

Hann segir erfitt að setja Trance í ákveðinn flokk og lýsir myndinni sem film noir-mynd að hluta til.  „Hún byrjar eins og listaverkaránsmynd eins og Thomas Crown Affair en hún fjallar í raun ekki um það.“

Með önnur helstu hlutverk í Trance fara Rosario Dawson og Vincent Cassel.