Minnislaus málverkasali

Nýjar myndir hafa verið birtar úr spennutrylli leikstjórans Danny Boyle, Trance, en Boyle gerði síðast hina sannsögulegu 127 Hours. Myndin verður frumsýnd í Bretlandi í mars nk.

Í samtali við bandaríska dagblaðið USA Today sagði Boyle að myndin byrjaði eins og dæmigerð noir glæpamynd, „en fer síðan að fjalla um stolið málverk og breytist svo í mynd sem er meiri sálfræðitryllir, með ýmsum óvæntum vinklum.“

Sjáðu myndir úr Trance hér að neðan:

 

 

Í myndinni er meðal annars ástarþríhyrningur á milli aðalpersónanna þriggja; andvökusjúklingsins og uppboðshaldarans Simons, dáleiðslumeistara og glæpaforingja. „Ég vildi gera nútíma noir glæpamynd, með mannlegum tilfinningum. Noir myndir eru yfirleitt frekar kaldranalegar. Ég vildi að myndin yrði tilfinningaríkari en dæmigerð noir mynd. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er með kvenpersónu í hjarta myndarinnar,“ sagði Boyle.

Myndin fjallar um uppboðshaldara í listhúsi sem skipuleggur rán á meistaraverki eftir spænska listmálarann Goya, ásamt illvígum glæpaforingja. Uppboðshaldarinn svíkur glæpaforingjann í ráninu miðju, og þorparinn bregst við með því að slá hann í höfuðið. Eftir höfuðhöggið ber Simon fyrir sig minnisleysi. Glæpagengið þarf nú að fá aðstoð dáleiðslumeistara til að endurheimta upplýsingar frá Simon um hvar myndin sem þau stálu, er niður komin.

Uppboðshaldarinn Simon, er leikinn af James McAvoy, Rosario Dawson leikur sálfræðinginn og dáleiðslumeistarann, og Vincent Cassel leikur glæpaforingjann.

Eftir því sem þau grafa dýpra inn í hugarheim Simons þá fara mörkin á milli raunveruleikans og dáleiðslunnar að verða óljósari og spennan vex …

Trance verður frumsýnd í Bretlandi 27. mars nk.