Peð á skákborði hárkollunnar

Aðalleikarar The Lost City, þau Channing Tatum, Sandra Bullock og Daniel Radcliffe, bregða á leik í nýju myndbandi frá framleiðendum kvikmyndarinnar og deila með okkur nokkrum gullkornum og „staðreyndum“.

Fyrirsætan og rithöfundurinn í kröppum dansi.

Myndin fjallar um höfund rómantískra ástarsagna sem er á kynningarferðalagi fyrir eina bók sína og með henni í för er sjóðheit karlfyrirsætan á bókarkápunni. Auðugur fjársjóðsleitarmaður vill að rithöfundurinn hjálpi sér að finna Týndu borgina og hann bregður á það ráð að ræna höfundinum – og fyrirsætan ákveður að bjarga deginum!

Í myndbandinu sem horfa má á í spilaranum hér fyrir neðan segir Tatum meðal annars frá hárkollunni sem fyrirsætan skrýðist og segir að hún „stjórni manni. Þú ert bara peð á hennar skákborði,“ segir Tatum.

The Lost City verður frumsýnd á föstudaginn næsta!