Nýtt í bíó – 47 Meters Down

Hákarlatryllirinn 47 Meters Down verður frumsýnd á föstudaginn næsta, þann 15. september, í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.


Systurnar Kate og Lisa eru í fríi í Mexíkó þar sem þær fá tilboð um að kafa í hákarlabúri og komast í návígi við hina risastóru hvítu hákarla sem hafast við undan ströndinni. Þær láta til leiðast en festast á hafsbotni þegar taugin sem tengir búrið sem á að vernda þær frá hákörlunum slitnar. Súrefnið er á þrotum og hvítháfarnir hringsóla í kringum búrið.

Í tilkynningu frá Senu segir að hér sé á ferðinni hörkuspennandi mynd sem fær áhorfendur bókstaflega til að halda niðri í sér andanum!

Leikstjórn: Johannes Roberts
Leikarar:    Claire Holt, Matthew Modine, Mandy Moore

Áhugaverðir punktar til gamans: 

-Eins og gefur að skilja gerist veigamesti hluti 47 Meters Down í undirdjúpunum en þau atriði voru tekin upp í risastórum köfunartanki Underwater-stúdíósins í Bretlandi og þykja meistaravel gerð. Frá því að þær systur fara ofan í djúpið líður áhorfendum hreint og beint eins og þeir séu með þeim, sérstaklega eftir að búrið sem þær eru í sekkur til botns og við förum að átta okkur á aðstæðum þeirra, bæði frá þeirra eigin sjónarhorni og frá sjónarhóli hákarlanna. Spennan verður gríðarleg, hrökkviatriðin eru mörg og hafa margir gagnrýnendur sagt þessi atriði vera þau bestu sem hafa sést í hákarlamynd, ekki síst vegna frábærrar kvikmyndatöku Marks Silk.

-Þær Mandy Moore og Claire Holt voru alls óvanar köfun þegar þær tóku að sér hlutverkin og þurftu að læra hana fyrir gerð myndarinnar.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: