Nýtt í bíó – War for the Planet of the Apes

Þriðja apaplánetumyndin, War for the Planet of the Apes, verður frumsýnd á miðvikudaginn í Smárabíói, Háskólabíói, Sambíóin Egilshöll, Laugarásbíói og Borgarbíói, Akureyri.

Eftir að apaflokkur Caesars verður fyrir miklum skaða í árásum hersveitar undir stjórn hins illvíga Colonels segir Caesar honum og mönnum hans stríð á hendur.

War for the Planet of the Apes er eins og fyrr sagði þriðja myndin í seríunni sem hófst með Rise of the Planet of the Apes árið 2011. Framhaldið, Dawn of the Planet of the Apes, var svo frumsýnd árið 2014 en serían er í raun forsaga atburðanna í fyrstu myndinni, Planet of the Apes, sem gerð var árið 1968 og gat af sér fjórar framhaldsmyndir á sínum tíma.

Leikstjórn: Matt Reeves
Helstu leikarar: Andy Serkis, Judy Greer og Woody Harrelson

Áhugaverðir punktar til gamans:

-Þeir sem þekkja upphaf sögunnar um Apaplánetuna, þ.e. fyrstu myndina sem gerð var 1968, vita að enn hlýtur að vera talsvert í að þessi sería tengist beint atburðarásinni í henni, jafnvel einhverjar aldir. Samt er að finna í þessari mynd nokkrar vísbendingar um hvað koma skal, t.d. þá að heitið á sveitum uppreisnarmannanna og merki er það sama og heiti kjarnorkusprengjunnar í mynd nr. tvö, Beneath the Planet of the Apes, sem bendir til að uppreisnarmennirnir séu forfeður hinna stökkbreyttu manna í þeirri mynd.

-Búið er að tilkynna að fjórða myndin í þessari seríu verði gerð, en um hana liggja ekki fyrir nánari upplýsingar. Sjálfur sagði Andy Serkis að það gætu verið tvö ár í hana og það gætu verið fimm.

-Þau Andy Serkis, Karin Konoval og Terry Notary eru einu leikararnir sem leikið hafa í öllum þremur myndum forsögunnar en þau Karin og Terry leika tvo helstu bandaapa Caesars, Maurice og Rocket.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan og plakat þar fyrir neðan: