Náðu í appið
143
Bönnuð innan 16 ára

Rise of the Planet of the Apes 2011

Justwatch

Frumsýnd: 3. ágúst 2011

Evolution Becomes Revolution

105 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 82% Critics
The Movies database einkunn 68
/100

Vísindamaður kannar genabreytingar í von um að finna lækningu á Alzheimer. Þegar hann gefur simpansa að nafni Sesar tilraunameðferð af lyfi, verður hann ofurgáfaður og einstaklega hættulegur. Sesar er ósáttur við framkomu mannsins gagnvart apakyninu og ætlar sér að frelsa bræður sína úr prísund mannsins. Er það upphafið á stríði manna og apa sem seinna... Lesa meira

Vísindamaður kannar genabreytingar í von um að finna lækningu á Alzheimer. Þegar hann gefur simpansa að nafni Sesar tilraunameðferð af lyfi, verður hann ofurgáfaður og einstaklega hættulegur. Sesar er ósáttur við framkomu mannsins gagnvart apakyninu og ætlar sér að frelsa bræður sína úr prísund mannsins. Er það upphafið á stríði manna og apa sem seinna meir mun gjöreyða mannkyninu? Þróun sem verður að byltingu. ... minna

Aðalleikarar

Serkis eignar sér miðlungsmynd
Hugmyndin um að núllstilla Planet of the Apes-seríuna (í annað sinn, tæknilega séð) er alls ekki slæm. Gamla serían hafði fullt af skemmtilegum hugmyndum en bara ekki alveg fjármagnið eða metnaðinn í að gera þeim mikið réttlæti. Ég mun einnig seint segja að Tim Burton-myndin hafi verið hræðileg en ljóst var að ekkert rými gafst til að segja almennilega sögu, og það er eitthvað sem þessi mynd reynir að gera. Sú saga er mátulega athyglisverð og góður grunnur til að byggja eitthvað skemmtilegt ofan á en á endanum fékk ég frekar bragðlausa upphafssögu sem var einstaka sinnum athyglisverð og grípandi en mestmegnis spennulaus og flöt. Hún dettur líka í bannsettu forsögugryfjuna og kemur þess vegna aldrei á óvart og fer nánast beint eftir númerum (eitthvað sem t.d. X: First Class gerði ekki).

Rise of the Planet of the Apes (sem er hallærislega teygður titill og hefði átt að haldast óbreyttur áður en þrjú orð voru bætt við hann til að auglýsa betur tenginguna við vörumerkið) er óformleg endurræsing seríunnar sem notar eitthvað af gömlu hugmyndunum og gengur sömuleiðis upp sem forsaga upprunalegu myndarinnar frá 1968 (sem greinilega þýðir það að sjokk-endirinn í henni hefur misst allt sitt óvissugildi). Það sem gerir Rise of the Apes (alveg rétt, ég kýs frekar að kalla hana það!) þess virði að fórna tímanum í eru tæknibrellurnar, Andy Serkis og lokahálftíminn – sem sýnir nákvæmlega það sem titillinn vitnar í. Allt hitt er annaðhvort ágætt eða ekkert spes.

Brellumeistararnir hjá Weta Digital eru stöðugt að keppast við Industrial Light & Magic sem flottasta brellukompaníið og að mínu mati hafa þeir reynst sterkastir í að skapa persónur alveg frá grunni. Raunverulegasti karakterinn hjá ILM í dag er líklegast Optimus Prime, en Weta-gæjarnir náðu fullkomlega að skapa fleiri stafrænar, óaðfinnanlega útlítandi persónur á áratugi, frá Gollum til King Kong og Neytiri. Núna bætist við simpansinn Caesar (túlkaður af Serkis sjálfum, vitaskuld) í þann hóp. Tölvuvinnan í þessari mynd er reyndar misjafnlega sannfærandi (skiljanlegt miðað við rétt svo 90 milljón dollara kostnaðinn – sem er ekkert miðað við flestar stórmyndir), og stundum er mjög svo áberandi að Caesar og hinir aparnir séu gangandi pixlar. Svo koma önnur tilfelli þar sem útlitið er næstum því 100% gallalaust og þegar maður sér vinnuna sem fór í að gera loðfeldinn fullkominn, svipbrigðin trúverðug og hreyfingarnar náttúrulegar þá fer það ekki á milli mála að maður sé að horfa á eitthvað sem maður kaupir strax. Caesar er þ.a.l. alvöru karakter, ekki tölvubrella, og í umsjón Serkis öðlast hann alvöru líf.

Serkis er náttúrulega ekkert annað en keisari Motion Capture-tækninnar. Hann skapaði Gollum og hefur augljóslega mikla reynslu af því að apa eftir... öh... apa. Rise of the Apes er algjörlega hans mynd og í rauninni einn mesti leiksigurinn hans. Þegar Caesar er á skjánum nær sagan eitthvað smávegis að slá á tilfinningalega strengi, en þá bara vegna þess að þeir sem leika mennskar persónur sýna hlutverkum sínum engan rosalegan áhuga, fyrir utan þá John Lithgow og Tom Felton (sem leikur í rauninni bara Draco Malfoy með bandarískan hreim). Venjulega er James Franco gífurlega heillandi og skemmtilegur leikari þegar hann leyfir sér það en í þessari mynd gefur hann sig ekkert fram. Frammistaðan sleppur en áhugaleysið sést langar leiðir, ekki nema það sé bara svona gríðarlega erfitt að leika á móti manni á fimmtugsaldri sem leikur apann. Þau Brian Cox og Freida Pinto sýna andlit sín af og til en eru skömmustulega vannýtt og virðast ekkert fá neitt merkilegt til að gera. Það kemur mér á óvart að gæðaleikari eins og Cox skuli sætta sig við svona takmarkaðan skjátíma.

Ég fann heldur ekki alveg fyrir kraftinum í sögunni þótt ég hafi fundið fyrir því að hann ætti að vera þarna. Ýmsar senur missa dálítið marks og það gengur ekki alltaf upp þegar myndin þykist vera að gleðja aðdáendur með því að vitna í upprunalegu bíómyndina. Klassíski Charlton Heston-frasinn var þar á meðal heldur vandræðalega skotinn inn. Annars má hafa gaman af brjáluðu apahjörðinni sem hleypur í gegnum San Francisco-borg í lokasenunum. Vel gerður og nokkuð kaotískur hasar þótt ég hafi aldrei verið við sætisbrúnina á meðan honum stóð. Mig langaði einnig í meira. Þetta var frekar lítill hvellur miðað við hvað afgangurinn á myndinni var mikil uppbygging. Persónan hennar Freidu Pinto hefði svo jafnvel mátt sleppa til að gefa sambandinu hjá Lithgow, Franco og apanum meira rými. Þeir þrír skipta sögunni mestu máli og er dramað byggt í kringum þá. Ég skil að það þætti ósanngjarnt að hafa engan kvenmann í allri myndinni en hún þjónaði sögunni næstum því ekkert.

Efniviðurinn hérna er samt svo góður að það hefði verið léttilega hægt að gera eitthvað mun áhrifaríkara úr honum, en þá fyrst og fremst með meiri handritsvinnu. Myndin leggur aðeins of mikla áherslu á lykilpersónuna, í rauninni svo mikið að mestallt fólkið í kringum hana dettur alveg úr augsýn – sem er slæmt. Leikstjórinn virtist heldur ekki leggja blóð, svita og tár í verkið miðað við sumar frammistöðurnar og ýmsar meðhandlanir á senum, og hvað Serkis varðar er ég viss um að sá maður hafi bara leikstýrt sér sjálfum.

Það er samt hellingur til þess að líka við og sjálfur styð ég þessa nýju Apaplánetuseríu þótt þessi hafi ekki verið upp á marga fiska. Endaatriðið (í miðjum kreditlistanum) er líka fjandi góður stimpill á að þetta gæti breyst í eitthvað spennandi. Helst þá vona ég að stúdíóið skipti um leikstjóra ef haldið verður áfram.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Heillar en ekkert meistaraverk
Rise of the Planet of the Apes. Bara nafnið veldur því að ég var ekki neitt spenntur fyrir þessarri mynd. Svo sá maður auglýsingu sem gefur 95% myndarinnar frá (forðist hana!) og ég varð að segja að ég var smá spenntur fyrir niðurstöðunni. Myndin kemur verulega á óvart og þá á góðan hátt. Þrátt fyrir að vera stútfull af pirrandi göllum eru það kostirnir sem standa upp úr.

James Franco getur til dæmis ekki leikið illa þótt hann reyndi og hann stendur sig mjög vel hérna er vandamálið er hversu hrikalega einfaldur karakterinn hans er. Það er ekkert skoðað dýpra og hann er bara þarna til að koma sögunni í gang en apinn sjálfur er aðalhlutverkið og stærsta stjarna myndarinnar (Andy Serkis fær heiðurinn fyrir það).

Myndin byrjar mjög vel og greip athyglina mína strax. Hún byrjar líka með krafti og er ekkert að hangsa í að koma söguþræðinum af stað. Karakter Franco er líka áhugaverður í byrjun og maður vill kynnast því hvernig hann er en það er ekkert farið mikið lengra þar sem er synd þegar verið að tala um svona góðan leikara. Svo kemur hinsvegar John Litgow (gætuð þekkt hann sem Trinity úr Dexter eða þeir sem fylgjast enn með HIMYM, pabbi Barney) til sögunnar og hann er að mínu mati hápunktur myndarinnar. Hvernig hann túlkar Alzheimers-sjúkling er mjög áhugavert og held bara með því raunverulegra sem hefur sést í bíómyndum. Maður vorkennir karakternum hans strax frá byrjun og hann er bara svo skemmtilegur og eitthvað svo einlægur. Bara frábær frammistaða og hífur myndina og tilfinningagildið upp um slatta.

Svo eru það hinu leikararnir. Það er ekki að þeir séu lélegir bara eitthvað svo tilgangslausir. Samt svona án djóks, hvað var Freida Pinto að gera þarna? Hún kom ekki við neinu nema bara ein dýralæknisheimsókn þar sem hún var „nauðsynleg“. Svo held ég að Tom Felton hafi ekki gert meira en að lita hárið sitt og endurtaka Malfoy-rútínuna. Ekkert að því svosem, bara aðeins of mikill skjátími.

Sem snýr svo að einum öðrum stórgalla, mér fannst myndin fulllöng og einnig voru atriðin í ákveðnu hæli aðeins of mörg og tilgangslaus. Samt frekar fyndið að sjá það spilast út eins og týpísk fangelsismynd, segi ekki meir. En núna kem ég loksins að kostunum sem eru talsvert margir. Tæknibrellurnar eru óaðfinnanlegar. Aparnir—Sjitt, var ekki að kaupa það að þeir voru tölvugerðir. Ertu ekki að grínast í mér hvað þeir voru klikkaðslega raunverulegir. Ef þér fannst King Kong flott bíddu bara þangað til þú sérð þessa!

Franco og Lithgow eru flottir saman sem feðgar og atriði með þeim voru mjög hjartnæm, eitthvað sem ég bjóst ekki við í svona mynd. Myndin er tilfinningarík og fyrri helmingurinn spilast út sem áhugavert drama með mjög svo fallegum senum. Svo kemur seinni helmingurinn sem er mun meira spennumynd og það er spennandi. Spennan magnast vel upp og “escalatar“ svo í lokin í einni flottustu brelluveislu ársins. Spennandi, hjartnæm en aðeins ein áhugaverð persóna sem er ekki einu sinni á skjánum meirihluta myndarinnar.

6/10

SPOILER FRAMUNDAN. Samt án djóks, öll þessi uppbygging svo gefur myndin okkur ekki einu sinni alla söguna. X-MEN: First Class hefði átt að gera þetta og hafa tvær, þrjár myndir en ekki þessi. Come on, kannski tíu manneskjur voru drepnar. Ekki beint Planet of the Apes, er það? SPOILER ENDAR.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

05.11.2023

Apar ráða öllu - Fyrsta kitla úr Kingdom of the Planet of the Apes

Fyrsta kitla og plakat er komin út fyrir spennumyndina Kingdom of the Planet of the Apes, en myndin kemur í bíó á Íslandi 24. maí næstkomandi. Myndin, sem leikstýrt er af Wes Ball eftir handriti Josh Friedman, Rick Jaffa, Amanda Silver og Patrick Aison, er fr...

04.05.2021

Þessar framhaldsmyndir eru betri en þær fyrri

Kvikmyndalistformið hefur nú verið til í á annað hundrað ár og enn virðist fólk vera þeirrar skoðunar að framúrskarandi framhaldsmyndir séu fágætar. Góð framhaldsmynd er oftast nær verk sem byggir ofan á þa...

23.06.2020

Upphafsreiturinn sem borgaði sig: Á flugi í fimmtán ár

Það blasir fljótt við að Batman Begins er ekki ofurhetjumynd sem hefur verið tjaslað saman af nefnd eða færibandi, heldur er þetta saga frá fólki - þeim Nolan-bræðrum í þessu tilfelli - sem höfðu niðurneglda túlku...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn