Nolan neitar að laga Bane röddina

Hingað til höfum við flest verið bara nokkuð ánægð með það sem við höfum séð úr The Dark Knight Rises, sem mun ábyggilega vera ein af fyrstu myndum kvikmyndasögunnar sem veldur því að fólk einfaldlega fái hjartstopp úr spenningi. Það eina sem menn eru ekki alveg 100% ánægðir með er hins vegar óljósa röddin í illmenninu. Setjið báðar hendurnar fyrir munninn á ykkur þegar þið talið í svölum frösum og þá fáið þið nokkuð góða hugmynd um hvernig Tom Hardy mun hljóma í myndinni.

Bane hefur komið sterkt fram í 6 mínútna IMAX-opnuninni (sem ýmsir íslendingar hafa séð í fallegum CAM-gæðum)  og nýjasta sýnishorninu en stundum hefur maður þurft að halla sér nær skjánum til að ná öllu því sem Bane segir. Flestir átta sig samt vonandi á því að ef einhver er með andlits(gas?)grímu, þá er röddin ekki fullkomlega skýr. Það væri óraunsætt ef svo væri.

Christopher Nolan, guð guðanna, hefur sagt sína skoðun á þessari umræðu og neitar að breyta röddinni eða lagfæra hana svo hún skiljist betur. Hann sagði í viðtali við The Hollywood Reporter að hann muni í mesta lagi fínstilla hana örlítið í klippingunni en ekkert meira en það. Hardy er semsagt ekki að fara vera dreginn inn í hljóðstúdíó til að taka sínar línur upp aftur.

Nolan segir (og þessu eru ekki allir sammála) að það skipti ekki öllu máli þótt áhorfandinn skilji ekki hvert einasta orð sem Bane segir, svo lengi sem samhengið náist og fólk hafi einhverja hugmynd um hvað hann er að tala um.

Þeir sem skilja skúrkinn alveg eru augljóslega í fínum málum, en þeir sem gera það ekki gætu endað með því að láta þetta fara meira en örlítið í taugarnar á sér. Eins gott að við íslendingar sjáum myndina með texta, segi ég nú bara.

En hvað segið þið mér? Náðir þú öllum orðunum sem Bane sagði eða þurftiru að lesa um það eftirá? (CAM-gæðin ekki talin með)