Neeson harður á eftirlaunum í franskri endurgerð

Liam Neeson er fyrir þónokkru síðan orðinn einn grjótharðasti leikarinn í Hollywood, og er rétt að byrja.

Síðar á þessu ári munum við sjá hann í myndinni Non-Stop, og nú hefur hann ákveðið að leika í einum spennutryllinum til viðbótar. Samkvæmt Deadline.com kvikmyndavefnum þá hefur Thunder Road fyrirtækið samið við Italia Films og hið kínverska Fundamental Films, um að endurgera frönsku myndina Les Lyonnais, sem hefur fengið enska heitið Gang Story. Leikstjóri verður Safe House leikstjórinn Daniel Espinosa, en Neeson er sagður munu leika aðalhlutverkið.

liam-neeson

Handrit skrifar David Scarpa, sem er um þessar mundir að skrifa endurræsinguna af Daredevil .

Hér fyrir neðan er stikla með enskum texta fyrir upprunalegu myndina, Les Lyonnais eftir Olivier Marchal:

Myndin fjallar um Edmond „Mormon“ Vidal sem í glæpagengi með vini sínum Serge Suttel en gengið varð frægt fyrir alræmt vopnuð rán snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Núna er Mormon að nálgast sextugt, og vill snúa við blaðinu og lifa heiðvirðu lífi. En vinur hans lendir í vandræðum, sem setur hið nýja rólega líf hans með eiginkonu, börnum og barnabörnum í uppnám, og fortíðin eltir Mormon uppi.

Ekki er víst hvenær myndin fer í tökur þar sem Espinosa fer næst að vinna að Child 44 með Tom Hardy og Gary Oldman, en við munum fylgjast náið með málinu.