Svarti Pardusinn 2 með fyrstu stiklu

Marvel framleiðslufyrirtækið hefur gefið út fyrstu stiklu úr ofurhetjumyndinni sem margir bíða spenntir eftir, Black Panther: Wakanda Forever, eða Svarti Pardusinn: Wakanda að eilífu, í lauslegri íslenskri snörun.

Jarðarför?

Stiklan var frumsýnd í lok kynningar Marvel á Comic-Con afþreyingarráðstefnunni í San Diego í Kaliforníu í gær, laugardaginn 23. Júlí. Ráðstefnan hófst 21. Júlí og lýkur í dag 24. Júlí.

Kvikmyndin, sem er í leikstjórn Ryan Coogler, og er framhald Black Panther frá árinu 2018, var eitt meginefni kynningarinnar.

Afrískir söngvarar kynntu

Stiklan, sem var kynnt af hópi afrískra söngvara, og inniheldur tónlist sem byggir textabrotinu We Gonna be Alright úr vinsælu lagi bandaríska rapptónlistarmannsins Kendrick Lamar, Alright, sló í gegn hjá viðstöddum.

Í stiklunni sjáum við m.a. myndir af vatnasvæðum hins skáldaða lands Wakanda. Í einu atriðinu virðist vera jarðarför þar sem fjöldi manns er viðstaddur íklæddur hvítum búningum.

Margir telja að jarðarfararsenan sé fyrir persónuna T’Challa, sem leikin var af Chadwick Boseman sem lést úr krabbameini í ágúst 2020, 43 ára að aldri.

Chadwick Boseman er sárt saknað.

Forstjóri Marvel Studios, Kevin Feige, hefur áður sagt að persóna Bosemans yrði ekki notuð í kvikmyndinni þar sem frammistaða hans hefði verið einstök.

Þá vaknar spurningin hver muni taka við Black Panther kyndlinum? Því miður er þeirri spurning ekki svarað í stiklunni.

Í lok stiklunnar sjáum við manneskju í búningi ofurhetjunnar en ómögulegt er að sjá hver það er.

Farið á nýja staði

Á Comic-Con sagði leikstjórinn og handritshöfundurinn Coogler, að í framhaldsmyndinni yrði farið á nýja og áður óséða staði í Wakanda og sömuleiðis fetaðar nýjar brautir í Marvel heiminum.

Hann tjáði sig einnig um dauða Boseman og áhrif hans á fyrstu myndina. „Það verður erfitt að halda áfram, en við reynum. Það eru fimm ár síðan ég var hér síðast. Ég sat um það bil hér og við frumsýndum fyrsta myndefnið úr Black Panther 1 og við hlið mér var T’Challa okkar, hinn frábæri Chadwick Boseman heitinn.”

Í bíó í haust

Black Panther leikararnir Lupita Nyong’o, Letitia Wright, Danai Gurira, Florence Kasuma og Winston Duke komu öll upp á svið með Coogler.

Myndin kemur í bíó 11. Nóvember nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: