Sagði nei við Marvel

Ava DuVernay, leikstjóri Selma, hafnaði því að leikstýra væntanlegri Black Panther-mynd frá Marvel. ava duvernay

Reiknað er með að fyrsta þeldökka ofurhetja Marvel, T´Challa eða Svarti pardusinn, verði komin á hvíta tjaldið í nóvember 2017. Chadwick Boseman mun leika aðalhlutverkið.

DuVernay staðfesti í viðtali við Essence að hún hefði átt í viðræðum við Marvel. „Ég ætla ekki að leikstýra Black Panther. Hugmyndir okkar um söguþráðinn voru ekki þær sömu,“ sagði hún.

Næsta mynd DuVernay er ástar- og morðsaga sem gerist þegar fellibylurinn Katrina gekk yfir New Orleans. Í aðalhlutverki er David Oyelowo, sem lék einnig í Selma.

Selma var tilnefnd til Óskarsins sem besta myndin. Þeir John Legend og Common fengu Óskarinn fyrir besta lagið, Glory, sem hljómar í myndinni.