Fín viðbót í hlaðinn ofurhetjuheim

Í stuttu máli er „Black Panther“ hin fínasta viðbót í sístækkandi heim Marvel ofurhetja.

Enn heldur Marvel heimurinn áfram að stækka og nýjasta viðbótin er mætt á svæðið. Svarti Pardusinn, rétt eins og Köngulóarmaðurinn, fékk smá kynningu í  „Captain America: Civil War“ en hér fáum við baksöguna og þyrnum stráða leið T‘Challa (Chadwick Boseman) að konungssæti hins tilbúna Afríkuríkis Wakanda.

T‘Challa er einnig Svarti Pardusinn. Eftir atburði „Civil War“ heldur hann til heimkynna sinna, hins efnahagslega hrjáða Wakanda þar sem meirihluti borgara býr við bágar aðstæður rétt eins og restin af heimsálfunni. Þó er konungdæmi hans af annarri gráðu þar sem borgin er falin frá umheiminum og býr yfir óendanlegu magni af sterkasta efni heims, svonefndu Víbraníum, og er hún framar öllum öðrum borgum í tækninýjungum og velmegun. Við komuna er T‘Challa svo krýndur konungur.

Fljótlega þarf hann að kljást við ógn vestanhafs þegar vopnasalinn Ulysses Klaue (Andy Serkis) kemur höndunum yfir Víbraníum og hyggst selja efnið til hæstbjóðanda. Leiðangurinn heppnast ekki sem skyldi og í kjölfarið kemst fyrrverandi hermaður, Erik Killmonger (Michael B. Jordan), inn í huldu borgina með hættulegt ráðabrugg í hyggju.

Í raun er ekkert nema jákvætt um „Black Panther“ að segja. Hér er sögð heilmikil saga um hið tilkomumikla ríki Wakanda og efnið mikla sem kom utan úr geimnum og lagði grunninn að velmegun þegna þess en skóp einnig mikla togstreitu og átök. Siðferðislegar spurningar skjóta upp kollinum og nýji konungurinn þarf að horfast í augu við ákvarðanir, og mistök, forvera sinna og mögulega breyta miklu ef hann lætur sig varða velferð heimsbyggðarinnar. Glæsilegur sjónrænn stíll, búningahönnun og tónlist glæða þennan tilbúna heim miklu lífi og allt útlit myndarinnar er magnað.

En svo er þetta líka Marvel mynd og barátta góðs og ills fær að njóta sín í mögnuðum hasaratriðum sem útfærð eru á frábæran hátt þökk sé fyrsta flokks tölvubrellum. Það hefur verið ákveðinn stígandi með hverri Marvel myndinni og „Black Panther“ veldur ekki vonbrigðum með fjölmörgum hasarsenum sem líta frábærlega út. Ef eitthvað þá má kannski helst hnýta í hve löng þessi atriði eru orðin en mögulega getur kynslóðarbili verið um að kenna hér en gagnrýnandi er nýskriðinn á fimmta tuginn.

Marvel myndirnar eru einnig blessunarlega mjög fyndnar á köflum þrátt fyrir að taka viðfangsefninu alvarlega. Í „Black Panther“ má finna smá skírskotun til eldri James Bond myndanna og þau atriði eru vel heppnuð og fyndin.

Leikarar standa sig allir með prýði hér. Chadwick Boseman smellpassar í hlutverk T‘Challa og reynsluboltarnir Angela Bassett (sem móðir T‘Challa), Forest Whitaker (sem frændi T‘Challa og heldri maður í samfélagi Wakanda) og Martin Freeman (sem CIA útstendari) standa fyrir sínu. Andy Serkis fer mikinn sem vopnasalinn hættulegi en hálfgerður senuþjófur hér er Danai Gurira (sem lífvörður konungsins) en leikkonan er orðin allsvakaleg með oddhvöss vopn eftir margra ára baráttu við uppvakninga í „The Walking Dead“.

Að lokum skal benda á að tvö atriði skjóta upp kollinum að mynd lokinni; eitt svokallað „mid-credits sequence“ og svo eitt að loknum allri stafarununni.