Tilkomumikill hasar en efniviðurinn ristir grunnt

Í stuttu máli er „Jurassic World: Fallen Kingdom“ uppfull af tilkomumiklum hasar og frábærum sjónbrellum en aðrir þættir klikka heldur mikið. 

Eftir atburði „Jurassic World“ (2015) búa risaeðlurnar einar á eyjunni Isla Nublar og við blasir enn meiri eyðilegging þar sem eldfjall er við það að gjósa og allt stefnir í aðra útrýmingu á dýrunum verði ekkert aðhafst. Vísindamaðurinn Ian Malcolm (Jeff Goldblum) ráðleggur á móti björgunaraðgerð og það verður niðurstaðan.

Benjamin Lockwood (James Cromwell), samstarfsmaður John Hammond sem fann upp á leið til að endurhanna risaðlurnar, efnir til ólöglegs björgunarleiðangurs og vill hann flytja risaeðlurnar á aðra mannlausa eyju og leyfa þeim að lifa í friði. Aðstoðarmaður hans, Eli Mills (Rafe Spall), sér um aðgerðina og hefur upp á Claire Dearing (Bryce Dallas Howard) og Owen Grady (Chris Pratt). Þörf er á þeim til að handsama snareðluna Blue þar sem Owen þjálfaði hana og Claire getur virkjað búnað sem hjálpar að hafa upp á henni. Þau uppgötva þó fljótlega að meira liggur að baki en göfug björgunaraðgerð.

En sagan sýnir að gegndarlaus grægði er dýru verði keypt og, til að vitna í Ian Malcolm, að „lífinu er ekki hægt að stjórna.“

Tímalaus boðskapur um græðgi mannsins, ásókn í stríð og óendanlegan þorsta í tæknilegan og líffræðilegan ávinning er umvafinn miklum hasar, tilkomumiklum tæknibrellum og mörgum gríðarlega vel útfærðum atriðum sem eru í senn óvenju næm eina stundina og hörkuspennandi þá næstu. Vandamálið er að sagan er svo tilviljanakennd og hraðsoðin að nánast má kalla hana illa skrifaða og framvindan er oft á tíðum illskiljanleg. Í ofanálag eru persónurnar afar flatar og illa raungerðar og gera hluti eingöngu vegna þess að „handritið segir svo“. Nokkrar framvindur virka eins og þær hafi átt meiri sögu á bak við sig en ákveðið var að flýta fyrir og rumpa þeim af svo hægt væri að keyra hasarinn áfram.

Það þarf vart að taka fram en tæknibrellurnar eru stórkostlegar og hasarinn er gríðarlega mikill og vel útfærður. Talsverð breyting er á sögusviðinu frá síðustu mynd og risaeðlurnar fá að valda usla á nýjum vettvangi og sjónrænt séð er myndin vel af hendi leyst. Snareðlan Blue og samband hennar við Owen er enn skemmtilegt að fylgjast með og öll atriðin með þeim ná fram mesta dramatíska þunganum á meðan önnur samskipti rista grunnt. Chris Pratt kemst merkilega langt áfram á sjarmanum einum saman en lítil sem engin þróun er á persónunni og sömu sögu að segja um Bryce Dallas Howard. Gæðaleikarar eins og James Cromwell og Ted Levine leika einstaklega flatar persónur og geta takmarkað gert og Jeff Goldblum sést um það bil jafnmikið í myndinni og í sýnishorninu.

Það er afar sjaldan að rýnir nefnir sérstaklega tónlistina en yfirþyrmandi hávaðinn eftir tónskáldið Michael Giacchino dregur helst til of mikla athygli að sér og skemmir fyrir ef eitthvað. Hún skánar töluvert þegar gamla John Williams stefið fær forgrunninn.

Stundum er sagt; Best að velta þessu ekki of mikið fyrir sér; og það viðhorf mun framkalla mesta skemmtigildið. Synd að það skuli vera raunin því undirliggjandi boðskapurinn býður upp á meira en heilalausan hasar og opinn endirinn gefur möguleika á að teygja enn frekar úr þessum sameiginlega heimi manna og risaeðla. Vonandi verður þá boðið upp á söguþráð sem stenst nærskoðun.