Tekjuhæsta mynd allra tíma

Nýja íslenska grínhasarmyndin Leynilögga, í leikstjórn Hannesar Þórs Halldórssonar, er tekjuhæsta íslenska kvikmynd sögunnar á frumsýningarhelgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framleiðendum, en myndin var frumsýnd í síðustu viku.

Auddi mundar byssuna.

Kvikmyndin slær þar með fimmtán ára gamalt frumsýningarmet Mýrinnar, sem Baltasar Kormákur leikstýrði, en hún var frumsýnd árið 2006 og tekjur frumsýningarhelgarinnar voru 15,8 milljónir króna.

Leynilögga var til samanburðar með 15,9 milljónir í tekjur á frumsýningarhelginni. Tekjur síðustu fimm daga eru enn meiri, eða tæpar 24 milljónir króna, og er þar einnig um nýtt met að ræða.

Í næstu þremur sætum eru Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum með 13,5 milljónir króna, Bjarnfreðarson með 13 milljónir og Eiðurinn með 12,6 milljónir króna.

Fleiri met í hættu

Það er því ljóst samkvæmt þessum tölum að Leynilögga, sem skartar fjölda frægra leikara, fer af stað með miklum látum og kvikmyndahúsagestir hafa tekið henni fagnandi.

Í tilkynningunni er árangrinum fagnað og þar segir jafnframt að ljóst sé að myndin muni gera atlögu að fleiri metum á næstu vikum.