Náðu í appið
Öllum leyfð

Bjarnfreðarson 2009

Frumsýnd: 26. desember 2009

105 MÍNÍslenska

Kvikmyndin Bjarnfreðarson er lokakaflinn í sögu félaganna Georgs, Ólafs og Daníels, sem hafa ferðast nauðugir saman í gegnum lífið í sjónvarpsþáttaröðunum Næturvaktinni, Dagvaktinni og Fangavaktinni. Það er fylgst með því hvað verður um þá Ólaf Ragnar og Daníel eftir atburði Fangavaktarinnar auk Georgs, en einnig er sérstaklega beint sjónum að honum... Lesa meira

Kvikmyndin Bjarnfreðarson er lokakaflinn í sögu félaganna Georgs, Ólafs og Daníels, sem hafa ferðast nauðugir saman í gegnum lífið í sjónvarpsþáttaröðunum Næturvaktinni, Dagvaktinni og Fangavaktinni. Það er fylgst með því hvað verður um þá Ólaf Ragnar og Daníel eftir atburði Fangavaktarinnar auk Georgs, en einnig er sérstaklega beint sjónum að honum og bakgrunni hans. Fáum við að sjá hvernig æsku Georg átti, en hún var ekki sérlega lík þeirri æsku sem flestir venjulegir Íslendingar eiga að venjast. Hann átti föður sem var meira en lítið strangur við hann, auk þess sem móðirin er ekki eins og fólk er flest. Gæti verið að æska Georgs og þær hremmingar sem hann lenti í á þeim tíma hafi gert hann að þeim undarlega manni sem hann er í dag? Og það sem meira er: getur þetta skrímsli sem hann er orðið einhvern tíma orðið að manni á ný?... minna

Aðalleikarar

Afbragðs lokakafli
Vaktaseríurnar þrjár fannst mér nokkuð skemmtilegar og reyndist Bjarnfreðarson vera prýðis viðbót. Þremenningarnir Daníel(Jörundur Ragnarsson), Ólafur(Pétur Jóhann Sigfússon) og Georg(Jón Gnarr) standa alltaf fyrir sínu og hér fá þeir að þróast almennilega en myndin einblínir mest á Georg þó að Daníel og Ólafur fái ágætis skjátíma. Ágústa Eva Erlendsdóttir fær hlutverk Bjarnfreðar á yngri árum og er alveg brill. Hún nær gömlu konunni frábærlega. Bjarnfreðarson er mjög fyndin á köflum og dramað helst í jafnvægi. Myndin endar skemmtilega en nokkrir óleystir hnútar. Ég mæli alveg ágætlega með Bjarnfreðarson, verðskuldar alveg þrjár stjörnur.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ágætt íslenskt drama
Bjarnfreðarson er sjálfstætt framhald af hinum vinsælu þáttum Fanga, Nætur og Dagvöktunum. Hún er ágæt sem íslenskt drama, en er svolítið erfitt að átta sig á öllum söguþræðinum og húmornum sem býr að baki myndarinnar ef að maður hefur ekki séð þættina.

Myndin segir í raun og veru tvær sögur í einu, hún segir söguna af uppvexti Georgs Bjarnfreðarsonar og svo söguna af sambandi hans og lífi hans með vinum sínum eftir fimm ára veru í fangelsi.
Móðir hans var hörkumikill jafnaðarmaður og feminísti og þurfti hann að þola erfitt og harkalegt uppeldi af þeim sökum. Hann lærði mikið, er með fimm háskólagráður, en lærði aldrei almennileg mannleg samskipti. Þegar maður fær að sjá þessa uppvaxtarsögu hans skilur maður betur sögu hans í nútíðinni þar sem að hann þarf að kljást við það að losna út úr skipulagða fangelsinu í óreiðu lífsins. Hann flytur inn með vinum sínum sem hann vann með á bensínstöð og fór svo í fangelsi með í þáttunum. Þeir eiga allir við sín áhugaverð vandamál að ræða.

Í myndinni er á skemmtilegan hátt notað almennt íslenskt líf og staði í borginni. Það er mjög góð tónlist í myndinni sem að dregur fram tilfinningar persónanna. Leikararnir stóðu sig vel en var Jóhann Haukur sérstaklega eftirminnilegur í sínu litla hlutverki. Jón Gnarr var virkilega góður í hlutverki sínu sem titilpersónann. Í lok myndarinnar er vel týnt saman efni sögunar og taka persónurnar skemmtilegum breytingum.

Þetta var ágætlega heppnuð íslensk dramamynd, helsti galli hennar var hversu þung hún var og hve mikil forsaga bjó að baki henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Kom á óvart
Bjarnfreðarson kom mér og held ég flestum sem hafa séð hana mikið á óvart. og bjuggust flestir við endalausu gríni og nýjum og hressandi frösum frá Ólaf Ragnari(Pétri Jóhanni). En myndinn er bara alls ekkert þannig. Hún náttla aðsjálfsögðu hefur nóg að góðu gríni og kemur manni til að hlægja nóg af köflum en dramað er einnig til staðar.

Myndinn snýst aðalega um Georg Bjarnfreðarson. Líf hans og hvernig hann varð eins og hann er. Myndinn byrjar frábærlega og heldur ágætiskeyrslu allann tímann. Myndinn fer mikið aftur í tímann þegar Georg var lítill og fá þá áhorfendur að sjá hvernig Georg varð. Bjarnfreður leikinn af henni Ágústu Evu þegar hún er á sínum yngri árum finnst mér allveg magnað og gaman að sjá hversu mikill feministi hún var og er. Ólafur Ragnar er einnig mjög skemmtilegur og fær fólk í salnum til að hlægja. Daníel er hinsvegar alltaf eins og hann er rólegur og yfirvegaður en i þetta skipti með konu og tvö börn(eiginlega 3 má segja). Restinn af karakterunum eru vel flestir skemmtilegir og koma sýnu hlutverki frá sér vel sérstaklega Halldór Gylfa (kiddi Kasió æðislegur karakter).

Ég get eiginlega voða lítið fundið einhverja galla við þessa mynd hún var einfaldlega bara æðisleg, vel gerð, og frábær í alla staði. Ég verð hinsvegar að koma því framm að Ragnar hafi nú heldur betur lokað þessum vakt seríum vel enda sést það með þessari mynd að það sé varla hægt að gera nýja seríu en við sjáum til með það.

En með frábærum leik góðum húmor og flottu handriti er ekki annað hægt en að gefa henni 8/10 hún verðskuldar það algjörlega.

Ps. Ég kvet sem flesta að kíkja í bíó á hana og styðja heldur betur gott íslenskt kvikmyndaefni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Þessi mynd kom mér á óvart hélt fyrst að þessi mynd mundi vera alveg eins og þættirnir stanslaust grínog djók en hún er það ekki. þó að það sé hægt að hlægja af henniog jú auðvita er eitthvað grín en líka alvara. hún er dramatísk og skemmtileg. fjallar um sorglega uppeldið sem hann Georg fékk og ástæðuna afhverju hann er svona hrikalega leiðilegur karakter.Ég er alveg vissum að allir munu fíla þessa mynd í ræmur:)
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Stórvel heppnað gamandrama með sál og nóg af húmor
Ég skal alveg viðurkenna að Vaktarseríurnar hafa aldrei verið í rosalega miklu uppáhaldi hjá mér, sem er stórfurðulegt þar sem þessir þættir eru með þeim bestu sem hafa verið framleiddir á Íslandi. Það segir væntanlega þá meira um íslenskt sjónvarp heldur en þessa þætti. Þessar seríur voru mjög fínar og á köflum bráðfyndnar (Fangavaktin sérstaklega) en ég náði aldrei að deila sömu umhyggju gagnvart Georgi, Ólafi og Daníel og meirihluti þjóðarinnar gerði. Þrátt fyrir að karakterarnir hafi verið skrautlegir og vel leiknir fór það alltaf mikið í taugarnar á mér hvað persónuþróun þeirra var takmörkuð út allar þrjár seríurnar. Auk þess voru þeir allir svo heiftarlega sorglegir að maður átti erfitt með að finna eitthvað sérstaklega til með þeim. Georg var bara óviðkunnanlegur fasistafýlupúki, Ólafur var seinþroska aumingi sem aldrei lærði neitt og Daníel var bara óákveðinn og bældur. Þeir voru allir svona í byrjun Næturvaktarinnar og þeir voru ekkert skárri í lok síðustu Vaktar. Síðan ákvað Ragnar Bragason og co. að taka einhverja bestu ákvörðun sem þeir gátu tekið varðandi þetta efni, og það er að gera bíómynd sem bæði betrumbætir persónusköpunina og flytur þessa svokölluðu sögu upp á allt annað stig.

Bjarnfreðarson kom mér ekki lítið á óvart. Mér fannst hún geggjuð! Og miðað við hvernig hún meðhöndlar efnið mætti halda að sjónvarpsseríurnar þrjár hafi bara verið einhvers konar upphitun. Myndin virkar vel sem lokahnykkur þáttanna og einnig sem sjálfstætt gamandrama sem hefur ýmislegt áhugavert að segja um uppeldi, vinasambönd og (kaldhæðnislega) sjálfstæði. Þetta er akkúrat íslenska feel-good myndin sem ég hef beðið eftir síðan 101 Reykjavík kom út. Hún er þúsund sinnum fyndnari heldur en Jóhannes (ef út í það er farið er nánast allt fyndnara en sú mynd) og mun hjartnæmari heldur Desember. Aðstandendur myndarinnar gefa henni þá sál sem hefur vantað í þættina og fær maður loksins að sjá einhverja breytingu hjá þessum skemmdu - en þó mannlegu - persónum. Og fyrst að ég var svona gríðarlega sáttur með niðurstöðuna, þá get ég ekki ímyndað mér annað en að hörðustu aðdáendur verði í skýjunum eftir myndina. Ekki nema þeir telji þróunarleysið vera sterkan kost, sem ég einhvern veginn efa, enda tel ég takmarkað hversu lengi er hægt að elska að hata Georg.

Jón Gnarr hefur mér alltaf þótt vera æðislegur. Hann var langfyndnasti Fóstbróðirinn og meira að segja í auðgleymdum bíómyndum (Íslenski Draumurinn, Maður eins og ég) stóð hann upp úr. Þegar ég fyrst sá hann leika Georg Bjarnfreðarson fannst mér persónan vera alltof einhliða týpa. Ég var heldur ekki bjartsýnn þegar ég sá að aðstandendur ákváðu að halda áfram að gera nýjar seríur. Þessi maður var bara viðurstyggð til áhorfs. Stundum var hann fyndinn en maður gat ómögulega þolað hann í meira en hálftíma. Í bíómyndinni gerðist hið ómögulega; mér fór skyndilega að þykja vænt um hann. Vægast sagt undarleg tilfinning en hvernig handritið fókusar á persónusköpun hans og sífellt dýpkar hana fór mér að finnast erfitt að fá ekki samúð með honum. Stór hluti af frásögninni fer líka í að sýna hvernig uppvaxtarár hans gengu fyrir sig, og þau atriði virkuðu mun betur en ég bjóst við. Þau tóku sig heldur ekki of alvarlega, sem er alltaf plús þegar um íslenskt drama er að ræða.

Gnarr fer nánast með leiksigur í þessari mynd (í þremur hlutverkum m.a.s.). Af hverju? Jú, útaf því að hann tekur þessa einhliða persónu og breytir henni í lagskiptan einstakling. Sama má eiginlega segja um Jörund Ragnarsson og Pétur Jóhann. Ég var sömuleiðis ánægður að sjá þá fá sína uppljómun, enda kominn tími til. Ég verð líka að gefa Ágústu Evu hrós fyrir að taka að sér hlutverk móður Georgs (þ.e.a.s. yngri útgáfuna). Þetta er erfið rulla sem hefði getað orðið kjánaleg og einhæf, en hún lætur hana virka. Er ég samt einn um það að hún og Sara Margrét séu nánast alveg eins í útliti? Þær gætu klárlega verið systur.

Vankantar í myndinni eru nokkuð svipaðir þeim sem voru í þáttunum, nema bara vægari. Ýmis samtöl eru pínu stirð og húmorinn reynir stundum að ganga einu skrefi lengra en hann ætti að gera. Stundum er betra að leyfa aðstæðum að spilast út á eðlilegum hraða án þess að pína ofan í þær sketsa. Með öðrum orðum, þá eru ýmis atriði bara sett inn í myndina til að vera fyndin, frekar en nauðsynleg. Þetta gerist þó ekki oft, og satt að segja hló ég mig vitlausan yfir sumum atriðunum. Svo má deila um það hvort myndin sé fullsykruð í lokasprettinum, en ég leit á það sem hluta af gríninu.

Mér finnst þetta vera ein best heppnaða íslenska kvikmynd (bæði í flokki gríns og drama) sem ég hef séð í mörg ár og ef ég gæti þá myndi ég klappa Ragga Braga á bakið fyrir að hafa lokað þessari Vaktarbók sinni með slíkum stæl. Út frá tæknivinnslu er myndin einnig faglega unnin og lítur almennt rosalega vel út. Hvað afþreyingargildi varðar þá er aldrei langt í grínið og alvarlegu augnablikin (sem eru ekki mörg, engar áhyggjur!) skilja meira eftir sig en maður heldur í fyrstu. Svo vefst þetta allt saman utan um andskoti fínan boðskap. Ég hefði alls ekki viljað hafa þessa mynd né lokaniðurstöðu sögunnar eitthvað öðruvísi.

Það er hressandi að sjá aftur íslenska mynd sem ég mun nenna að horfa á oftar en einu sinni. Þurfum ekkert að ræða það neitt frekar.

7/10 (Suddalega nálægt áttu í einkunn)

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn