Metaregn Guardians of the Galaxy

Bandaríska Marvel ofurhetjumyndin Guardians of the Galaxy virðist ætla að taka bandaríska bíóheiminn með trompi þesssa helgina, en myndin, sem verður frumsýnd í dag föstudag í Bandaríkjunum, var forsýnd í gær og rakaði á þeim sýningum saman 11,2 milljónum Bandaríkjadala, sem þýðir að myndin er orðin aðsóknarmesta fimmtudagsforsýnda-mynd ársins í Bandaríkjunum.

guardians

Hin stóra Marvel myndin sem frumsýnd var fyrr á árinu, Captain America: The Winter Soldier, átti gamla forsýningarmetið 10,2 milljónir dala.

Þriðja aðsóknarmesta fimmtudagsforsýnda-mynd ársins er síðan Godzilla með 9,3 milljónir dala. Í fjórða sæti er Transformers: Age of Extinction með 8,8 milljónir dala og í fimmta sætinu The Amazing Spider-Man 2 með 8,7 milljónir dala á fimmtudagsforsýningardegi sínum.

Guardians of the Galaxy mun slá fleiri met nú um helgina, en hún verður mest dreifða ágúst-forsýnda mynd allra tíma, þegar hún verður sýnd í 4.080 bíóhúsum nú um helgina í Bandaríkjum, en gamla metið átti G.I. Joe: The Rise of Cobra sem var frumsýnd í 4.007 bíóhúsum árið 2009.

Þá er aðsóknarmet á frumsýningarhelgi í ágúst í Bandaríkjunum, sem The Bourne Ultimatum á sem stendur, í stórhættu, en í ágúst 2007 þénaði hún 69,2 milljónir dala á frumsýningarhelgi sinni. Guardians of the Galaxy er spáð 70 -80 milljón dala tekjum yfir helgina.

Með aðalhlutverk í The Guardians of the Galaxy fara Chris Pratt, Zoe Saldana, Dave Bautista, Vin Diesel, Bradley Cooper, Lee Pace, Michael Rooker og Karen Gillan. Leikstjóri er James Gunn.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: