Þétt og hröð B-mynd

Í stuttu máli er „Crawl“ einföld, beinskeytt og hröð spennumynd sem heldur dampi allan tímann.

Sundkappinn Haley (Kaya Scodelario) heldur til heimabæjar föður síns Dave (Barry Pepper) þrátt fyrir að verið sé að tæma staðinn út af fellibyls- og flóðviðvörun til að hafa upp á honum eftir að hann svarar ekki í símann. Hún finnur hann rænulausan og slasaðan í kjallara uppeldisheimilis síns. Er hún reynir að koma honum í öruggt skjól sér verður á vegi þeirra stærðarinnar krókódíll og feðginin eru nú föst í litlu rými sem fljótlega mun fyllast af vatni. Og ástandið mun svo bara versna og krókódílunum fjölga.

„Crawl“ er eðal B-mynd sem blandar saman hamfaramynd og „creature-feature“ mynd í anda „Jaws“ (1975) en undanfarin ár hafa áhorfendur fengið ansi vænan skammt af ógnum í sjónum; allt frá D-myndabálkinum „Sharknado“ (2013-2017) til endurgerðarinnar „Piranha“ (2010 – einmitt einnig eftir leikstjórann Alexandre Aja), „47 Meters Down“ (2017) og nú síðast „The Meg“ (2018) svo einhver dæmi séu tekin. „Crawl“ greinir sig samt frá þeim með því að taka sig alvarlega og koma með nýtt „spin“ á ógnina í vatninu með því að framreiða dýrategund sem einnig er ógnandi á landi og láta öll herlegheitin eiga sér stað á meðan náttúruhörmungar dynja yfir. Þrátt fyrir að teljast ódýr mynd í framleiðslu (um 13.5 milljónir dala) er hún mjög vel af hendi leyst sjónrænt séð og hamfaraatriðin sem og krókódílaárásirnar eru mjög sannfærandi afgreidd hjá tölvudeildinni.

Handritið er í sjálfu sér rislítið og sögusviðið mjög afmarkað en dramað (sem snýr að flóknum samskiptum feðginanna) kemst vel til skila þökk sé góðum leik Peppers og Scodelario. Þar sem „Crawl“ skarar fram úr er að keyra atburðarrásina hratt áfram og ná upp mikilli spennu (og þónokkrum góðum bregðuatriðum) og rumpa öllu af á innan við 90 mínútum. Í raun er hún ekki mjög blóðug þó vissulega eru sum atriðin ansi mögnuð og þessar drápsmaskínur af náttúrunnar hendi eru sannarlega ógnvekjandi skepnur. Leikstjórinn Alexandre Aja á að baki mjög góðar myndir eins og „Haute Tension“ (2003) og endurgerðina af „The Hills Have Eyes“ (2006) og hann kann vel að mjólka spennu og framkalla mikinn óhug og hér heldur hann vel á spöðunum allt til loka.

„Crawl“ er þétt og beinskeytt skemmtun í anda bestu B-mynda forðum daga (og nýrra líka) og á þá líka skilið gagnrýni sem er ekki mikið að orðlengja hlutina.

Crawl (2019)

Leikstjóri: Alexandre Aja

Handrit: Michael Rasmussen og Shawn Rasmussen

Aðalhlutverk: Kaya Scodelario, Barry Pepper, Morfydd Clark og Ross Anderson