Hæg og stemningsrík en lítil innistæða

Í stuttu máli byggir „Hereditary“ upp talsverðan óhug en innistæðan fyrir honum er lítil. Illskiljanleg atburðarrás og kjánalegt niðurlag hjálpar ekki til heldur. 

“Hereditary” hefst á þurrum nótum með dánartilkynningu á fullorðinni konu. Dóttir hennar Annie (Toni Collette) viðurkennir í jarðarförinni við sína nánustu og óvenju marga gesti að samband þeirra var afar stormasamt og að tilvera móður hennar hafi verið mjög svo einræn og lokuð öðrum.

Persónulegt líf Annie er í töluverðu uppnámi í kjölfarið og samskipti hennar við dóttur sína Charlie (Miley Shapiro), soninn Peter (Alex Wolff) og eiginmanninn Steve (Gabriel Byrne) eru ekki eins og best verður á kosið. Ýmsir dularfullir atburðir eiga sér svo stað eftir jarðarförina og andlegri heilsu Annie hrörnar hratt.

Erfitt er að segja meira frá gangi mála nema að spilla fyrir atburðarrásinni.

„Hereditary“ er mjög stemningsrík mynd sem tekur sinn tíma í að byggja upp þrúgandi og óþægilegt andrúmsloft og lengi vel veit áhorfandinn ekki hvaða stefnu myndin ætlar að taka. Ekkert af atburðarrásinni er útskýrt í þaula og jafnvel í lokin er ýmislegt sem enn er á huldu. Vissulega eru mörg atriðin frekar óhugnanleg en þegar mynd gefur sér það bessaleyfi að flakka á milli drauma, jafnvel drauma innan drauma, og láta það liggja á milli hluta hvað er raunverulegt og hvað ekki þá skilja óhugnanlegu atriðin lítið eftir sig. Þau eru ekki hluti af góðri framvindu og fá bara að skjóta upp kollinum sem stök atriði og eru frekar ódýr fyrir vikið.

Þunglamalega andrúmsloftið, löngu tökurnar og óhugnanlega tónlistin skapa sannarlega ónotalega stemningu en ekkert af þessu smellur nægilega vel saman. Myndin er rúmlega tvær klukkustundir að lengd og áhorfandinn finnur vel fyrir því og án efa hefði verið hægt að sneiða meira af myndinni þar sem löngu senurnar og þunglamalega yfirbragðið leiða til lítils annars en einfaldlega hægrar atburðarrásar með lítilli innistæðu. Nokkuð greinilegt er að leikstjóri og handritshöfundur hér, Ari Aster, hefur heillast af „The Shining“ (1980) en margt hér ber yfirskrift hálfgerðs lofsöngs en sú mynd gat þó réttlætt hægaganginn.

Sagan er frekar ruglingsleg og niðurlagið vægast sagt óvænt og, ef marka má viðbrögð gesta í kvikmyndahúsinu, líklegra til að valda hlátrasköllum frekar en óhug. Í gegnum myndina eru mörg teikn sem gefa til kynna hvað koma skal og kom rýnir auga á nokkur atriði og vafalaust er hægt að grandskoða myndina og uppgötva margar vísbendingar um atburðarrásina sem er í vændum. Gallinn er sá að myndin er engan veginn nógu góð til þess að kalla á frekari áhorf og hvað þá að leggjast í að „stúdera“ hana inn og út. En vafalaust verða einhverjir nógu hugfangnir af myndinni og þá er gott púsluspil í vændum.  Mögulega er það þó myndinni til óhags að koma með útskýringu á undangengnum herlegheitum þar sem niðurlagið er helst til kjánalegt en líklega er erfitt að meta það. Áhorfandinn fær útskýringu en hún dekkar ekki alla atburðarrásina sem hefur átt sér stað. Nema kannski fyrir þá sem leggja í að „stúdera“ myndina og þá þarf frekari áhorf.

Myndin er þó ansi vel leikin. Annie er best skilgreinda persónan og Toni Collette kemur henni frábærlega til skila. Shapiro er fantagóð sem Charlie en hún er afar sérstök persóna sem á endanum er ein stór og óútskýrð ráðgáta. Wolff er góður sem Peter og þarf hann að fara í gegnum allan persónuleika- og þjáningaskalann líkt og Collette og Byrne fer létt með hlutverk Steve þó hann sé frekar vannýttur.