Eggsy mættur aftur í fyrstu stiklu úr Kingsman: The Golden Circle

Njósnaundrið Eggsy er mættur aftur til leiks í Kingsman: The Golden Circle, framhaldi myndarinnar Kingsman: Secret Service sem sló í gegn fyrir þremur árum síðan.

Fyrsta stiklan í fullri lengd er líka komin út, sneisafull af njósnahasar.

Söguþráðurinn er eftirfarandi: Í myndinni þá er höfuðstöðvum Kingsman gereytt, og heimurinn er á heljarþröm. Njósnararnir úr fyrri myndinni grípa til sinna ráða, og uppgötva njósnahring í Bandaríkjunum undir nafninu Statesman, en saga hans nær til sama dags og Kingsman samtökin voru stofnuð. Þetta nýja ævintýri mun reyna verulega á okkar fólk, en þessi tvö leynilegu samtök leiða að lokum saman hesta sína gegn sameiginlegum nýjum óvini, enda er allur heimurinn í hættu!

Kingsman: The Secret Service var frumsýnd árið 2014 og varð eins og fyrr sagði, óvæntur smellur. 414 milljónir bandaríkjadala skiluðu sér í aðgangseyri um víða veröld, sem er ansi gott fyrir bannaða mynd, enda spurðist hún vel út. Gagnrýnenendur tóku myndinni sömuleiðis vel.

Það má einnig halda því til haga að leikstjórinn Matthew Vaughn tók Kingsman fram yfir Marvel ofurhetjumyndina X-Men: Days of Future Past, og því mátti allt eins gera ráð fyrir góðri mynd.

Allt þetta þýðir að væntingar eru miklar fyrir framhaldsmyndinni sem Vaughn stýrir einnig.

Með helstu hlutverk fara Taron Egerton, Mark Strong, Colin Firth, Sophie Cookson, Pedro Pascal, Channing Tatum, Julianne Moore, Jeff Bridges, Halle Berry og Elton John.

Myndin kemur í bíó í lok september nk.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: