Harry Potter í 14 ár

Þessi grein birtist fyrst í desemberhefti Mynda mánaðarins.

Það eru liðin rúmlega 14 ár síðan Daniel Radcliffe var ráðinn af leikstjóranum Chris Columbus til að fara með hlutverk Harrys Potter, en fyrsta myndin í seríunni var frumsýnd í nóvember árið 2001.

daniel radcliffe

Daniel Jacob Radcliffe er fæddur þann 23. júlí árið 1989 og er eina barn hjónanna Alans Radcliffe og Marciu Gresham, en Alan er frá Norður-Írlandi en Marcia frá Suður-Afríku. Daniel fékk snemma áhuga á leiklist og var iðinn við að taka þátt í skólaleikritum sem barn og þótti standa sig vel. Hvattur áfram af foreldrum sínum sótti hann árið 1998 um hlutverk Davids Copperfield í samnefndri sjónvarpsmynd sem BBC var með í bígerð og hlaut það eftir að hafa verið tekinn í prufur.

Tveimur árum síðar sóttist hann eftir hlutverki í myndinni The Tailor of Panama sem gerð var eftir samnefndri bók Johns le Carré og var ráðinn. Þar lék hann m.a. á móti þeim Pierce Brosnan, Geoffrey Rush og Jamie Lee Curtis og er sagt að Jamie, sem vissi að brátt yrði einhver ráðinn til að leika galdrastrákinn Harry Potter, hafi sagt að Daniel væri einmitt rétti drengurinn í hlutverkið. Það reyndist heldur betur rétt.

Margir höfðu áhyggjur af því að þar sem Daniel varð svo þekktur fyrir Harry Potter-myndirnar myndi hann eiga í erfiðleikum með að losna við karakterinn eftir það. Sjálfur segist Daniel alltaf hafa verið meðvitaður um þetta, en um leið harðákveðinn í að sanna fjölhæfni sína um leið og Harry Potter-verkefnið væri að baki. Það hefur hann svo sannarlega gert á undanförnum árum, bæði í kvikmyndum og á sviði í leikhúsum Lundúna.

Daniel leikur nú aðalhlutverkið í myndinni What If? sem kynnt er hér fyrir ofan og ef einhver er í minnsta vafa um að hann hafi endanlega losað sig við Harry Potter-ímyndina þá ætti sá hinn sami að sjá þessa mynd þar sem hann fer á kostum ásamt mótleikara sínum, leikkonunni, Zoe Kazan.