Hæfileikarík Cotillard

Þessi grein birtist fyrst í desemberhefti Mynda mánaðarins. 

Franska leikkonan Marion Cotillard er fædd í París þann 30. september árið 1975 og á ekki langt að sækja bæði leiklistaráhugann og leikhæfileikana, enda dóttir leikarans, leikritaskáldsins og leikstjórans Jean-Claude Cotillard og leikkonunnar og leiklistarkennarans Niseemu Theillaud.

cotillard

Marion hefur vakið gríðarlega athygli í leiklistarheiminum á undanförnum árum en segja má að hún hafi náð alþjóðaathygli þegar hún hlaut Óskarsverðlaunin fyrir túlkun sína á
Edith Piaf í myndinni La Vie en Rose árið 2007. Síðan þá hefur hún sannað hæfileika sína aftur og aftur í hverri myndinni á fætur annarri og nú spá margir því að hún verði á ný tilnefnd til Óskarsverðlauna þann 15. janúar næstkomandi, annað hvort fyrir leik sinn í myndinni Two Days, One Night eða The Immigrant. 

Fyrrnefnda myndin kom út á VOD-leigunum í síðasta mánuði og á blaðsíðu 41 hér aftar í blaðinu kynnum við þá síðarnefndu þar sem mótleikarar Marion eru þeir Joaquin Phoenix og Jeremy Renner. Við viljum hvetja alla sem kunna að meta kvikmyndaleik eins og hann
gerist allra bestur til að láta þessar tvær myndir alls ekki fram hjá sér fara.