Sönn saga af sjóráni

Þessi grein birtist fyrst í septemberhefti Mynda mánaðarins. 

Þann 8. apríl árið 2009 rændu nokkrir sómalskir sjóræningjar bandaríska flutningaskipinu MV Maersk Alabama og hugðust nota bæði skipið og áhöfnina til að kúga fé út úr eigendunum. Richard Phillips var skipstjóri á Maersk Alabama þegar þetta gerðist og skrifaði hann í kjölfarið bókina A Captain’s Duty: Somali Pirates, Navy SEALS, and Dangerous Days at Sea sem myndin Captain Phillips er gerð eftir.

captain_phillips-tom-hanks

Það er Tom Hanks sem leikur Phillips en myndin er í leikstjórn Pauls Greengrass sem gerði m.a. myndirnar Green Zone, The Bourne Ultimatum og Bloody Sunday. Aðeins degi fyrir ránið á Maersk Alabama hafði áhöfn skipsins æft viðbrögð við slíku sjóráni sem voru algeng á þessum tíma þótt það hefði aldrei gerst áður að bandarísku skipi væri rænt á þennan hátt. Og vegna þess hve vel áhöfnin var undirbúin tókst þeim að varna því að hinir sómölsku sjóræningjar næðu að sigla skipinu í land þótt þeir næðu um tíma yfirhöndinni um borð. Hins vegar tóku þeir skipstjórann, Phillips, í gíslingu og flýðu með hann frá borði í sérútbúnum björgunarbáti áður en bandaríski herinn kom á vettvang.

Við tók nokkurra daga háspennueftirför þar sem óhætt er að segja að líf skipstjórans hafi hangið á bláþræði enda hótuðu sjóræningjarnir stöðugt að taka hann af lífi ef árás yrði gerð á bátinn. En til einhverra ráða varð þó að grípa því ef sjóræningjarnir næðu til lands á bátnum þá myndi þeim ekki verða skotaskuld úr því að láta sig og gísl sinn hverfa og við það gátu Bandaríkjamenn ekki sætt sig. Bátinn varð því að stöðva með einhverjum hætti og að sjálfsögðu á þann hátt að skipstjórinn lifði björgunaraðgerðina af.

Captain Phillips verður frumsýnd í október og þeir eru margir sem spá því að hér sé komin ein af þeim myndum sem keppa munu um Óskarsverðlaunatilnefningarnar á næsta ári.