Stundum þarf bara að finna rétta lykilinn

Otto í kvikmyndinni A Man Called Otto, sem komin er í bíó, er úrillasti maður í heimi. Hann er svo fúllyndur að fýluna leggur af honum langar leiðir.

Eftir að hann missir konuna sína hefur lífið ekkert til að bjóða honum upp á lengur og hann vill enda þetta allt saman.

Mariana Treviño sem Marisol og Tom Hanks sem Otto.

A Man Called Otto (2022)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.5
Rotten tomatoes einkunn 69%

Fúllyndur maður á eftirlaunum vingast óvænt við fjörugan nýjan nágranna sinn. Hinn önugi Otto hefur gefist upp á lífinu eftir að eiginkonan dó og vill að þessu ljúki helst öllu sem fyrst. Þegar ung fjölskylda flytur í næsta hús, hjón með tvær fjörugar stelpur, þá leiðir...

Þegar ung fjölskylda flytur í hverfið mætir hann jafningja sínum í hinni jákvæðu, hvatvísu og hnyttnu Marisol. Smám saman myndast vinátta milli þeirra og heimur hans verður ekki samur aftur.

Endurgerð á sænskri mynd

Ef þetta hljómar kunnuglega er það ekkert skrítið. A Man  Called Otto er endurgerð á sænsku myndinni En man som heter Ove frá 2015. Sú mynd sló í gegn um víða veröld og nú er komin Hollywood-útgáfa af henni. Báðar myndirnar eru byggðar á bókinni Maður sem heitir Ove, sem var mest selda bókin í íslenskum bókaverslunum 2013.

Mörgum finnst eflaust ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur að endurgera þessa frábæru mynd, sem sænski leikarinn Rolf Lassgård sló í gegn í undir fumlausri leikstjórn Hannes Holm. Hér er það Marc Forster sem leikstýrir, en Tom Hanks fer með aðalhlutverkið, sem hlýtur að teljast alvöru gæðastimpill.

Nöldurseggur dauðans

Við fyrstu sýn er Otto ábyggilega mesti fýlupúki sem við höfum nokkru sinni rekist á, nöldurseggur dauðans sem þolir engin frávik frá sinni daglegu rútínu og rýkur upp á háa c-ið af minnsta tilefni. Fólki finnst hann bitur og sár og honum finnst hann vera umkringdur eintómum hálfvitum.

En þegar ungu hjónin flytja í hverfið með tvær ungar dætur sínar kemur smám saman í ljós að maðurinn sem enginn í hverfinu þolir á sér aðra hlið.

Fróðleikur

-Í einu atriði myndarinnar þurfti að nota tölvutækni til að yngja andlit Tom Hanks svo hann liti út fyrir að vera á fertugsaldri. Notaðar voru myndir úr The Burbs (1989) til að gera þetta.

-Yngri útgáfan af Otto er í myndinni leikin af Truman Hanks, sem er sonur Tom.

-Sænska frummyndin var tilnefnd til tvennra Óskarsverðlauna og var sú erlenda mynd sem halaði inn mestar tekjur í Bandaríkjunum árið 2016. Frumsýnd  24. febrúar 2023

Aðalhlutverk: Tom Hanks, Mariana Trevino, Rachel Keller, John Higgins, Tony Bingham og Lily Kozub

Handrit: David Magee, en byggt á bók Fredriks Backman og mynd Hannesar Holm

Leikstjórn: Marc Foster

Greinin birtist fyrst í Kvikmyndir mánaðarins, sérblaði Fréttablaðsins.