Radcliffe og Rubert grétu þegar tökum á Harry Potter lauk

Harry Potter sjálfur, breski leikarinn Daniel Radcliffe, viðurkennir í samtali við OK blaðið breska að hann hafi verið eyðilagður, og grátið, þegar tökum lauk í júní sl. á síðustu Harry Potter myndinni. Lokakafli Harry Potter myndanna er í tveimur hlutum, en fyrri hlutinn verður frumsýndur þann 19. nóvember nk. hér á landi og í Bandaríkjunum. Seinni hlutinn verður síðan sýndur á næsta ári.

Radcliffe hefur varið nær tíu árum lífs sín í leik í Harry Potter myndum, en fyrsta myndin var gerð þegar hann var 11 ára gamall. Hann er nú 21 árs gamall. Leikaranum þótti sérstaklega erfitt að kveðja samstarfsfólk sitt í myndunum og var lengi að jafna sig. Radcliffe sagði: „Við vorum öll miður okkar. Ég hef t.d. aldrei nokkurntíman fyrr séð Rupert Grint gráta, en þetta var mjög tilfinningaþrungið fyrir okkur. Þegar ég sá hann gráta, þá grét ég enn meira. Þessar myndir einkenna stóran hluta af barnæsku minni, sem ég er nú búinn að kveðja. Saklausi strákurinn er farinn,“ bætti Daniel Radcliffe við í samtalinu við OK glanstímaritið.