Radcliffe ekki í nýju Harry Potter myndum

daniel radcliffeFyrrum Harry Potter stjarnan Daniel Radcliffe mun ekki snúa aftur í galdraheima Harry Potter í væntanlegri mynd sem gera á eftir Harry Potter sögunni  Fantastic Beasts and Where to Find Them.

Radcliffe tjáði sig um þetta á blaðamannafundi fyrir nýja þáttaröð á Sky Arts sjónvarpsstöðinni, A Young Doctor’s Notebook & Other Stories.  Radcliffe staðfesti að hann og líklega ekki hinar stjörnurnar úr Harry Potter, Rupert Grint og Emma Watson, myndu koma fram í nýju myndunum, sem gerast 70 árum áður en Harry, Ron og Hermione mæta fyrst í galdraskólann í Harry Potter myndunum.

„Ég er viss um að þau eiga eftir að skemmta sér mjög vel. Ég er viss um að fólk mun verða mjög spennt,“ sagði Radcliffe sem lék aðalhlutverkið í átta myndum um Harry Potter á árunum 2001 – 2011. „Ég mun ekki taka þátt. Ég veit ekki hvort nokkurt okkar [ upprunalegu leikararnir  í Harry Potter ] verður með. Ég veit ekkert um það.“

Warner Bros kvikmyndaverið, sem gerði Harry Potter myndirnar, tilkynnti á dögunum að það væri að vinna að nýrri kvikmyndaseríu með höfundi Harry Potter bókanna, JK Rowling, en hún mun nú í fyrsta sinn skrifa sjálf handrit að bíómynd. Titill myndarinnar, Fantastic Beasts and Where to Find Them, er fenginn úr kennslubók af fyrsta ári í Hogwarth galdraskólanum í bókinni Harry Potter and the Philosopher’s Stone.

Sjáðu stiklu hér fyrir neðan úr nýjustu mynd Daniel Radcliffe, Kill Your Darlings: