Aldrei sami karakter tvisvar

Þessi grein birtist fyrst í desemberhefti Mynda mánaðarins.

Jeff Bridges er af mörgum talinn einn albesti leikari sinnar kynslóðar en hann er þekktur fyrir fjölhæfni sína og fyrir að hafa lagt sig í líma við að leika helst aldrei sama karakterinn tvisvar.

jeff bridges

Jeff Bridges er fæddur þann 4. desember árið 1949 og er sonur leikarahjónanna
Lloyd Bridges og Dorothy Dean Bridges. Ólíkt mörgum öðrum foreldrum í Hollywood segir Jeff að foreldrar hans hafi frá upphafi hvatt sig og eldri bróður sinn, Beau Bridges, til að leggja leiklistina fyrir sig og gera hana að ævistarfi eins og þau. „Pabbi lifði fyrir leiklistina og fannst ekkert skemmtilegra. Hann elskaði þessa vinnu og hvatti okkur til að feta í sín fótspor. Hann vaknaði á hverjum morgni fullur tilhlökkunar og var alltaf að segja okkur að þetta væri besta starf í veröldinni, starf þar sem maður hitti alveg fullt
af skemmtilegu fólki og fengi að ferðast um heiminn um leið og maður
nærði og ræktaði sköpunargáfuna á hverjum degi.“

Jeff Bridges hóf leikferilinn ungur að árum eins og bróðir hans, en þeir léku m.a. ásamt föður sínum í vinsælum sjónvarpsþáttum á árunum 1958 til 1963, fyrst Sea Hunt og síðar í The Lloyd Bridges Show. En þrátt fyrir þetta segist Jeff ekki hafa ætlað að gera leiklist að framtíðarstarfi. „Æ, mér fannst það bara eitthvað svo óspennandi á unglingsárunum að
leggja fyrir mig sama starf og pabbi. Ég vildi gera eitthvað annað og var í dálitlum uppreisnarhug eins og gjarnan er með unglinga.“

En bakterían sem enginn skilur almennilega en er samt til staðar, leiklistarbakterían, átti eftir að taka sér bólfestu í Jeff sem í dag hefur skapað nokkrar af eftirminnilegustu persónum kvikmyndanna og er vonandi hvergi nærri hættur. Sjáið hann í myndinni The Giver sem er kynnt hér á síðunni á móti, en þar leikur hann titilhlutverkið.