The Slumber Party Massacre (1982)

Jæja kæru lesendur, nú er komið að föstudegi. Í þetta skiptið verður ’80s slasher fyrir valinu, og verður það ekki í síðasta skiptið.

           

                      The Slumber Party Massacre

Vinahópur stelpna ákveður að hafa gistipartý heima hjá einni þeirra. Það sem þær vita ekki, er að morðinginn Russ Thorn (Michael Villella) gengur laus eftir að hafa sloppið út. Nýja stelpan í skólanum, Valerie (Robin Stille) býr í húsi sem er beint á móti húsinu sem hýsir gistipartýið. Þegar hún verður var við ólæti og skrýtna hluti ákveður hún að kanna málið – því hefði hún átt að sleppa …

Söguþráður myndarinnar er mjög skemmtilegur. Margir myndu segja að þetta sé hinn almenni slasher söguþráður, og svona heldur klisjukenndur. Því er ég ósammála. Það eru jú til fleiri myndir með svipaðan söguþráð, en þessi mynd er bara svo frumleg á sinn hátt að hún fær allt mitt lof. Staðsetning myndarinnar er frábær. Hún gerist aðallega inni í einbýlishúsinu þar sem stelpurnar deila leyndarmálum og dansa um naktar. Myndin þarf þó að byrja og vinna sig upp að einbýlishúsinu, þannig að það eru nokkrar senur teknar upp í skóla og utandyra. Atriðið í skólanum þar sem Russ Thorn (morðinginn) fer í eltingarleik við Lindu (Brinke Stevens) er mjög svo fjörlegt, og mjög ’80s. Lýsingin í myndinni reyndar er bara þarna, það er ekki hægt að segja meira um hana. Leikararnir standa sig prýðilega, ’80s slasher hljómar kannski ekki eins og mynd sem býður upp á ljómandi leiklist, en það er ekki hægt aspm-new1ð rakka hana niður að mínu mati. Leikstjórinn (Amy Holden Jones) setur leikarana vel upp, og er töff að sjá mynd sem er leikstýrð af konu. Upptakan er reyndar eins og lýsingin, hún bara einhvernveginn er þarna. Það eru engin frumleg skot eða slíkt, myndin er bara tekin upp. Mér finnst hún samt ekki léleg, en eftir að hafa séð þessa mynd nokkrum sinnum þá væri maður til í að setja kameruna á aðra staði heldur en þá upprunalegu. Tæknibrellurnar eru til fyrirmyndar. Það er hoggin af hendi og fleira sem lítur mjög vel út. Sárin eftir borinn sem Russ Thorn notar eru öll mjög flott, og kemur pítsusendillinn í myndinni upp í huga minn sérstaklega. Myndin er flott klippt, og er tónlistin algjört lostæti. ’80s hljómborðið verður aldrei úrelt.

Þessi mynd er uppáhalds slasherinn minn. Mér líkar við allt í þessari mynd, en maður verður virkilega að kunna að meta svona myndir til að þykja vænt um þær. Fólk sem horfir bara á Adam Sandler nota sömu “fyndnu röddina“ í öllum myndum sem hann leikur í, og hlær að því, mun örugglega ekki líka við Slumber Party Massacre. Ef þú vilt horfa á góðan slasher, og vilt ekki horfa á Friday the 13th eða Nightmare on Elm Street, horfðu þá á þessa mynd! Fólk, endilega notið helgina í áhorf.