Friday the 13th (1980)

Mín umfjöllun fyrir þennan föstudag kemur hér. Í dag er föstudagurinn þrettándi og ákvað ég því að taka ’80s slasherinn Friday the 13th í þetta skiptið. Þetta er ein vinsælasta hryllingsmynd allra tíma eins og flestir kvikmyndaáhugamenn vita. Serían spannar tólf myndir, sem inniheldur meðal annars blóð og kynlíf eins og í öllum bestu hrollvekjunum.

Eftir að strákur að nafni Jason Voorhees drukknaði og tveir unglingar voru myrtir ári seinna, er hópur starfsmanna að reyna að opna Camp Crystal Lake og loka myrka orðsporinu fyrir fullt og allt. Allt fer þó á versta veg þegar líkin byrja að hrannast upp á nýjan leik.

friday-the-13th-title-screenshotMyndin gerist að mestu á Camp Crystal Lake svæðinu, sem eiginlega hýsir Jason Voorhees út Friday the 13th seríuna. Hópur starfsmanna brettir upp ermar og reyna að láta skína smá ljós á þennan dimma stað, fólkið fær viðvaranir út myndina frá bæjarfólki, en lætur þær sem vind um eyru þjóta. Jack Burrel (Kevin Bacon) er saklausi kærastinn, og er drepinn á skemmtilegasta mátann í myndinni. Alice Hardy (Adrienne King) er lokastelpan í þessari mynd (stelpan sem lifir út alla myndina, eins og Nancy Thompson í A Nightmare on Elm Street, Laurie Strode í Halloween, Sidney Prescott í Scream og svo framvegis). Myndin er ofleikin í nokkrum senum, en leikstjórnin er hinsvegar mjög góð. Um leikstjórnina sér Sean S. Cunningham. Tæknibrellurnar eru rosa flottar, Kevin Bacon er drepinn mjög flott hvað varðar frumlegheit og tæknibrellur, Mrs. Voorhees (Betsy Palmer) sömuleiðis. Tónlistin setur svo auðvitað myndina á annað stig eins og er með flestar ’80s myndir.

Þeir sem hafa ekki séð þessa og eru eitthvað í hryllingsmyndunum verða að hoppa á hana sem fyrst.