Graduation Day (1981)

Sælir kæru lesendur. Hér mun ég koma með mína elleftu umfjöllun í röðinni. Á hverjum föstudegi fjalla ég um B-myndir, ódýrar myndir, indí myndir, költ myndir og almennt lítið þekktar myndir. Til þessa hef ég lagt mikla áherslu á myndir sem eru í hryllingsgeiranum, ekki einungis vegna þess að það er uppáhalds tegundin mín af myndum, heldur líka vegna þess að sú tegund á að mínu mati oft bestu myndirnar úr þeim fimm flokkum sem ég tek myndir úr til að fjalla um. Í þetta skiptið mun ég fjalla um TROMA slasherinn Graduation Day, en næstu tvo föstudaga mun ég ekki taka hryllingsmyndir, svona til að setja smá sinnep ofan á þetta allt saman.

Eftir að hlauparinn Laura deyr eftir að hafa klárað 30 sekúndna hlaup, byrja liðsfélagar hennar að detta niður dauðir hér og þar. Myndin gerist að mestu í skóla krakkana, og snýst mikið um útskriftardaginn og það sem honum fylgir, það er verið að undirbúa sig fyrir stóra daginn með æfingum inni í sal og svo framvegis. Myndin er upplýst, björt og notaleg. Það er samt auðvitað þessi dimmi fílingur yfir öllum slasherum, og er þessi engin undantekning. Þjálfarinn, George Michaels (Christopher George – Pieces/Mortuary) er ákveðinn en hugljúfur þjálfari liðsins, góður karakter sem er vel leikinn. Anne (Patch Mackenzie), eldri systir Lauru sem byrjar myndina með dauðsfalli, er hörð gella úr hernum sem kemur í bæinn til að fá svör við dauða systur sinnar. Leikstjórn og upptaka myndarinnar er flott, mikið af POV skotum til að setja mann í spor morðingjans, einkenni slasher myndanna og eitthvað sem verður aldrei þreytt að mínu mati. Tæknibrellurnar eru fínar, ódýrar og skemmtilegar. Myndin er skemmtilega klippt, þá sérstaklega í byrjun myndarinnar þar sem ’80s tónarnir fá að flæða við nokkrar klippur.GD

Þetta er góður slasher. Í fjársjóðskistu TROMA leynast margar myndir, ásamt þessari. Ég vill benda fólki á það að leigan vídjóheimar í skeifunni er að hætta, og því allt til sölu. Fleiri hundruð myndir eftir og því úrval í boði sem hver og einn kvikmyndaáhugamaður getur nýtt sér. Hvað á að horfa á um helgina?