Vídeóhöllin lokar

Videóhöllin í Lágmúla, sem lengi var ein stærsta og vinsælasta videóleiga landsins, lokar á sunnudaginn.
Útsala hefur verið á notuðum diskum í nokkrar vikur í leigunni og margir gert góð kaup, og fer nú hver að verða síðastur að næla sér í ódýra diska.

Það má leiða líkum að því að lokun Vídeóhallarinnar sé afleiðing breyttra tíma í vídeóheiminum. Netið og VOD eru hægt og sígandi að taka við af gömlu góðu vídeóspólunum og DVD diskunum.

Eitt sinn voru vídeóleigur á hverju horni, en nú er öldin önnur.

Þó er ein vídeóleiga sem enn stendur traustum fótum, Laugarásvídeó á Dalbraut 1 í Reykjavík. Laugarásvídeó er með þúsundir titla og þar er oft biðröð út úr dyrum.
Gunnar Jósefsson eigandi leigunnar, segist ekki á leiðinni í burtu, enda sé nóg að gera. „Fólk kemur hingað alla leiðina úr Hafnarfirði til að skoða úrvalið,“ segir Gunnar í samtali við Kvikmyndir.is