Mun Hanks lenda á Hudson?

Eins og við sögðum frá á dögunum þá ætlar Clint Eastwood að gera mynd um flugstjórann Chesley „Sully“ Sullenberger, sem á einfaldlega að heita Sully.

Captain Phillips

Heimildir kvikmyndaritsins Variety herma að enginn annar en Tom Hanks eigi nú í viðræðum um að leika flugstjórann hugaða, sem nauðlenti farþegavél heilu og höldnu fullri af farþegum á Hudson ánni í New York árið 2009.

Myndin verður byggð á bók eftir Sullenberger og Jeffrey Zaslow og fjallar um manninn sem varð þjóðhetja eftir að flugvélin sem hann stýrði bilaði stuttu eftir flugtak og hann neyddist til að taka erfiðar ákvarðanir til að reyna að bjarga farþegunum.

Framleiðandinn Frank Marshall keypti kvikmyndaréttinn að bókinni árið 2010 og hefur unnið að kvikmyndinni æ síðan. Eastwood hafði verið að velta fyrir sér að gera myndina Patriot´s Day, sem á að fjalla um sprengjuárásirnar í Boston maraþonhlaupinu fyrir CBS Films, en ákvað í staðinn að taka að sér Sully.

Hanks er ekki óvanur því að leika hugprúða menn, og er þar skemmst að minnast Captain Phillips, Jim Lovell í Apollo 13 og nú síðast Walt Disney í myndinni Saving Mr. Banks. 

Næst sjáum við Hanks í Steven Spielberg myndinni Bridge of Spies, en nú sem stendur er hann við tökur á Inferno, en þar mun hann á ný leika hlutverk Robert Langdom.