Hanks verður dauðvona vélmennasmiður

Þó að síðasta vísindaskáldsaga sem Tom Hanks lék í, The Circle, hafi hlotið misjafna dóma, er leikarinn ekki af baki dottinn og ætlar nú að leika aðalhlutverkið í annarri mynd af sömu tegund, kvikmyndinni Bios.

Handritshöfundar eru þeir Craig Luck og Ivor Powell, og Game of Thrones leikstjórinn Miguel Sapochnik leikstýrir.

Myndin fjallar um vélmenni í framtíðinni þegar alheimsstríð hefur lagt mestan hluta Jarðarinnar í eyði. Vélmennið, sem var upphaflega þróað til að halda verndarhendi yfir ástkærum hundi þess sem smíðaði vélmennið, mun nú læra allt um ást og vináttu, og fleira sem allir þurfa á að halda þegar heimurinn er á heljarþröm. Hanks leikur dauðvona skapara vélmennisins. Ef allt gengur eins og í [vísindaskáld] sögu, þá munu tökur hefjast snemma á næsta ári.

Tom Hanks er sem fyrr með mörg járn í eldinum. Ekki er langt síðan hann sendi frá sér smásagnasafn, og þá hefur hann unnið að gerð kvikmyndar með vini sínum Steven Spielberg, The Post, sem kemur í bíó hér á Íslandi 19. janúar nk.