Meira drama fyrir Statham – Stikla

Ný stikla er komin fyrir næstu Jason Statham mynd, Hummingbird, sem er jafnframt fyrsta mynd leikstjórans Steve Knight.

Eins og segir í frétt Empire kvikmyndaritsins þá reynir myndin meira á Statham sem leikara en margar aðrar af myndum hans, en hann er einkum þekktur fyrir harðsoðnar spennu- og slagsmálamyndir þar sem meiri áhersla er á hasar en drama.

Sjáðu stikluna hér að neðan. Stiklan er einnig aðgengileg á vídeósíðu kvikmyndir.is

Hummingbird gerist í undirheimum Lundúnaborgar og fjallar um Joseph „Joey“ Jones, fyrrum sérsveitarmann sem reynir að komast hjá herrétti og endar sem heimilislaus á götum borgarinnar.

Hann ákveður að taka sig saman í andlitinu og koma lífi sínu á réttan kjöl og brýst inn í íbúð ríks viðskiptajöfurs, en hann dregst samt fljótlega inn í undirheima borgarinnar þar sem hann þarf að láta reyna á hæfileika sína.

Myndin verður frumsýnd í Englandi 17. maí nk. en ekki er kominn frumsýningardagur fyrir myndina hér á landi.