Madonna sest í leikstjórasætið

 Listakonan Madonna, sem var í nokkur ár gift leikstjóranum Guy Ritchie, hefur nú sest í leikstjórastólinn sjálf. Um þessar mundir fer kvikmyndahátíðin í Toronto fram, og er Madonna mætt þangað með sögulegu dramamyndina, W.E. Fyrstu mynd sína, „Filth and Wisdom“ frá 2008, segist hún hafa gert til að læra kvikmyndagerð, og að nú sé hún tilbúin til að láta taka sig alvarlega sem kvikmyndagerðarkonu.

W.E. fjallar um Wallis Simpson og samband hennar við Játvarð VIII bretakonung. Eins og frægt er var hún amerísk og fráskilin, og þurfti því Játvarður að afsala krúnunni til að geta gifst henni. Þessi saga sást síðast á skjánum í óskarsmyndinni The King’s Speech, þó ekki væri hún í aðalhlutverki. Auk þess fjallar myndin um Wally, New York búa í tilvistarkrísu sem verður heltekin af sögu Walis Simpson.

Í nýlegu viðtali við L. A. Times segist hún ekki hafa viljað gera hefðbundna ævisögu-mynd, heldur miðla upplifun sinni á hvernig líf Wallis hefði verið. Myndin sé í raun heldur ekki ástarsaga, en fjalli um frægð og þá tilfinningu að þekkja sögu manneskju sem maður þekkir þó ekkert.Myndinni hefur almennt ekki verið tekið vel af gagnrýnendum, en Madonna segist hafa búist við því að persóna sín myndi flækjast fyrir gagnrýnendum, og lætur það ekki á sig fá.

Mér fannst nú búið að gera alveg nógu magar myndir um hana Wallis, en þetta hljómar allavega eins og skemmtileg tilraun hjá henni. Það verður forvitnilegt að sjá hvort þessi W.E. mun rata á Íslandsstrendur. En stóra spurningin er kannski er fólk tilbúið til að taka Madonnu alvarlega sem leikstjóra?

-Þorsteinn Valdimarsson

Stikk: