Jackass 3D öruggir beint á toppinn í Bandaríkjunum

Asnakjálkarnir í Jackass skutust beint á topp bandaríska aðsóknarlistans um helgina, þegar nýjasta Jackass myndin, sú þriðja í röðinni, var frumsýnd þar vestanhafs, og sönnuðu þar með að fólk hefur endalaust gaman af hrekkjum og sprengingum í kvikmyndum.

Jackass 3D gerði mun betur í miðasölunni en spáð hafði verið og þénaði 50 milljónir Bandaríkjadala yfir helgina í Bandaríkjunum og í Kanada, að sögn dreifingaraðilans Paramount Pictures.

Ef svo fer sem horfir, og lokatölur fyrir helgina eru komnar í hús, þá mun myndin slá met Scary Movie 3 ( 48,1 milljón dala ) og verða besta október frumsýning sögunnar.

Spekingar höfðu spáð myndinni 30 milljónum dollara í innkomu yfir helgina, en niðurstaðan, 50 milljónir, þýða að þetta er besta frumsýningarhelgi myndar á þessu ári síðan Inception var frumsýnd fyrir þremur mánuðum með 63 milljónum Bandaríkjadala í innkomu yfir frumsýningarhelgina.

Eins og flestir þekkja þá snúast Jackass myndirnar um glæfraatriði sem yfirleitt fela í sér óþægindi og sársauka fyrir þátttakendur, en um er að ræða hóp manna undir leiðsögn æringjans Johnny Knoxville. Meðal vinsælla atriða eru uppköst, að skjóta sér upp í loftið með fallbyssu eða álíka tólum, og svo framvegis.

Samkvæmt Paramount voru 40% Jackass áhorfenda kvenkyns, en hlutfall kvenmanna var 34% þegar fyrsta myndin var frumsýnd árið 2002. Sú mynd opnaði í fyrsta sæti með 23 milljónir Bandaríkjadala í innkomu og endaði með því að þéna 64 milljónir dala í það heila. Mynd númer 2, frá árinu 2006, þénaði 29 milljónir dala á frumsýningarhelginni, og 73 milljónir í það heila.

Samkvæmt frétt Reuters voru gagnrýnendur almennt hrifnir af myndinni, þó þeir segðu flestir að þrívíddin hefði ekki bætt miklu við, þó svo að myndin hefði verið tekin í þrívídd, en ekki breytt í þrívídd, en stór munur er þar á.

En af öðrum myndum sem frumsýndar voru þá varð Red með Bruce Willis í öðru sæti um helgina, og þénaði 22,5 milljónir Bandaríkjadala, sem er í takt við væntingar. Myndin er byggð á teiknimyndasögu frá DC Comics. Í myndinni leika einnig Morgan Freeman og Helen Mirren.

Facebook myndin The Social Network féll niður í þriðja sæti, en hún var á topnnum um síðustu helgi.

Sjáið lengri lista hér.