Hobbiti gæti farið frá Nýja Sjálandi

Nýja Sjáland gæti misst stóran spón úr aski sínum ef að deilur nýsjálenskra leikarara við Warner Bros framleiðslufyrirtæki fara ekki að leysast, að því er AP fréttastofan greinir frá, en nýbúið er að staðfesta að tökur á myndinni eigi að hefjast í febrúar nk.

Warner Bros er nú þegar farið að undirbúa mögulegan flutning á tökum myndarinnar til annars lands.

Lord of the Rings þríleikurinn, sem gerist eftir Hobbitann og var leikstýrt af sama leikstjóra og á að leikstýra Hobbitanum, Peter Jackson, auk þess að vera gerð eftir bókum eftir sama höfund og höfund Hobbitans, J.R.R. Tolkien, var tekin upp í fjöllóttu landslagi Nýja Sjálands sem skipti sköpum fyrir útlit myndarinnar. Nýja Sjáland hefur síðan þá notið góðs af auknum ferðamannastraumi, en ferðamenn tengja landið nú við ævintýraheim Tolkiens.

Leikarafélag Nýja Sjálands hefur sagt að unnið sé að lausn deilunnar, og búið væri að aflétta banni sem sett var á vinnu leikara við myndina, en erlend stéttarfélög leikara, til dæmis hið öfluga Screen Actors Guild í Bandaríkjunum, sem áður studdi bannið, hefur nú leyft leikurum sínum að vinna við myndina.

Yfirmenn í fyrirtæki Peter Jacksons, segja að nú sé hinsvegar að verða of seint að bjarga málunum, enda eru menn þegar farnir að leita annarra tökustaða. Meðal annars hafa menn verið að skoða kvikmyndaverið þar sem Harry Potter myndirnar eru teknar.

Deilan hófst í september þegar leikarafélagið í Nýja Sjálandi kom á alþjóðlegu banni á vinnu leikara við myndina, þegar Jackson neitaði að eiga fundi við stéttarfélagið um allsherjar samning um laun og aðstöðu leikara á vinnustað, og bar því við að þeir ættu að fá sama samning og kollegar þeirra í öðrum löndum.

Jackson og fyrirtækin Warner Bros, MGM og New Line Cinema sem öll koma að framleiðslu myndarinnar, segja að allsherjar samningur myndi stefna myndinni í hættu, vegna hættu á lögsóknum og refsiaðgerðum ýmiss konar.