Hobbiti verður dýrasta mynd allra tíma

Kvikmyndin um Hobbitann, eftir bók J.R. Tolkien The Hobbit, sem gerist á undan Hringadróttinssögu eftir sama höfund, og byrjað verður að taka í febrúar nk., verður að öllum líkindum dýrasta kvikmynd sögunnar. NZ Herald greinir frá þessu.

Áætlað er að myndin muni kosta 500 milljónir Bandaríkjadala, eða 55 milljarða íslenskra króna en nú þegar er lögfræðikostnaður vegna myndarinnar kominn upp fyrir 100 milljónir dala, eða rúma 11 milljarða íslenskra króna, að því er ástralska vefsíðan news.com.au segir frá.

Dýrasta mynd kvikmyndasögunnar er Pirates of the Carribean: At Worlds End, en hún kostaði litlar 300 milljónir Bandaríkjadala, eða 33 milljarða íslenskra króna.

Mikill kostnaður við Hobbitann skýrist að hluta til af greiðslum til ýmissa rétthafa, en þeir hefðu getað með áframhaldandi þófi frestað gerð myndarinnar um önnur tíu ár, en staðið hefur til að taka þessa mynd í um tíu ár.

Kvikmyndafyrirtæki leikstjórans Sir Peter Jacksons, Wingnut Films mun framleiða myndina ásamt Warner Bros / New Line Cinema.