Gráhærður uppljóstrari á Austurvelli

Breski leikarinn Benedict Cumberbatch, sem er rísandi stjarna í kvikmyndaheiminum og leikur m.a. illmennið í næstu Star Trek mynd, Star Trek Into Darkness, sem kemur í sumar, sést á meðfylgjandi mynd, sem tekin er á Austurvelli í Reykjavík, í nýjasta hlutverki sínu sem hakkarinn og uppljóstrarinn Julian Assange sem stofnaði uppljóstrunarvefsíðuna WikiLeaks.

Assange er frægur fyrir sitt gráa hár og Cumberbatch er bara þónokkuð líkur honum á þessari mynd. Með honum á myndinni er þýski leikarinn Daniel Brühl í hlutverki Daniel Domscheit-Berg, sem var talsmaður WikiLeaks fram til ársins 2010 og er höfundur bókarinnar Inside WikiLeaks: My Time With Julian Assange at the World’s Most Dangerous Website.

Myndin um Assange og WikiLeaks heitir The Fifth Estate og er leikstýrt af Bill Condon.

Handritið er skrifað af Josh Singer og er að hluta byggt á bók Domscheit-Berg.

Aðrir leikarar í myndinni eru Laura Linney, Anthony Mackie, David Thewlis, Peter Capaldi, Dan Stevens, Alicia Vikander og Carice van Houten, sem leikur Birgittu Jónsdóttur, þingmann.

Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 15. nóvember nk.