Gerðu grín að leikstjóranum

Kvikmyndin I am Zlatan, sem fjallar um sænsku fótboltahetjuna Zlatan Ibrahimovic, og kom í bíó nú í vikunni, er byggð á samnefndri sjálfsævisögu Zlatans frá árinu 2013.

Í myndinni er fjallað um leið fótboltamannsins til frægðar og frama og sagt frá hvernig hann ólst upp í Rosengard, slæmu hverfi í Malmo. Hann varð á endanum heimsfræg stjarna sem spilaði á mörgum stærstu íþróttavöllum í heimi og fyrir mörg frægustu lið veraldar eins og Juventus, Inter, Barcelona, Milan, Paris Saint-Germain og Manchester United og sænska landsliðið.

Atvinnumannaferillinn hófst þó í Svíþjóð hjá Malmo FF árið 1999.

Zlatan í búningi Ajax í Hollandi.

Eins og fram kemur í myndinni þá var augljóst allt frá byrjun að Ibrahimovic var mjög hæfileikaríkur. Hann þurfi þó að yfirstíga fjölmargar hindranir á leið sinni á toppinn og oft var það skapið og þrasgirinin sem kom honum í vandræði.

Þess má geta að þrátt fyrir að Zlatan sé orðinn fertugur að aldri, þá er hann enn að spila á hæsta getustigi, sem lykilleikmaður AC Milan á Ítalíu.

Hugsaði um eigin barnæsku

Leikstjóri myndarinnar, Jens Sjogren, sagði við AFP fréttastofuna að þegar hann hafi lesið fyrstu kaflana í ævisögunni hafi honum orðið hugsað til eigin barnæsku. Hann segir einnig að með því að fjalla um Zlatan þegar hann er ungur sé líklegra að kvikmyndin nái til fleiri aðila en bara þeirra sem hafa fylgst með honum á fótboltavellinum.

„Jafnvel þó að Zlatan hafi átt erfiða barnæsku á köflum þá höfum við öll verið krakkar og þurft að glíma við ólíka hluti,“ segir hinn 45 ára gamli leikstjóri.

Granit Rushiti, 22 ára, sem fer með hlutverk Zlatans segir í samtali við AFP að Ibrahimovic sé frábær fótboltamaður, einn sá besti í heimi. „Hann er lifandi goðsögn, þannig að það er mikill heiður að fá að leika hann.“

Rushiti, sem sjálfur var efnilegur fótboltamaður, en þurfti að hætta vegna meiðsla, segir að Zlatan hafi verið honum innblástur. „Ég hef spilað fótbolta alla ævi þannig að hann hefur verið stór hluti af lífi mínu og fótboltaferli.“

Leiðist þér lífið?

Íþróttavefurinn The Athletic segir frá því í grein að aðrir leikstjórar hafi gert grín að Jens Sjogren þegar hann sagði þeim að hann ætlaði að gera kvikmynd um Zlatan Ibrahimovic. „Þeir sögðu; ertu í sjálfsmorðshugleiðingum? Leiðist þér lífið? Afhverju viltu gera mynd um Zlatan.“

Ástæðan er sú að í Svíþjóð hafa allir skoðun á leikmanninum og það sama má segja víðar um heiminn. Skoðanir eru mjög skiptar og hafa alla tíð verið. Hann hefur löngum verið milli tannanna á fólki.

Athletic fjallar um ráðninguna í hlutverk Zlatans. Hún var snúin því finna þurfti aðila sem ekki bara líktist leikmanninum heldur gæti einnig svipað til hans sem fótboltamanns.

Fótboltamann fremur en leikara

Sjogren áttaði sig snemma á því að það væri mun líklegra að honum tækist að finna fótboltamann sem gæti leikið heldur en leikara sem kynni fótbolta.

„Við prófuðum nokkra fræga leikara, en það var ekki mjög sannfærandi. Treystu mér,“ sagði Sjogren. „Við vorum næstum hætt við allt saman.“

Loks sá leikstjórinn og hans fólk æfingu hjá fjórðu deildar liði Eslov BK. Þar var framherjinn Granit Rushiti á vellinum en hann hafði þá nýlega verið búinn að vera að reyna fyrir sér í Portúgal hjá liðunum Sporting og Benfica.

„Í fyrsta sinn sem ég sá hann á vellinum þá sögðum við framleiðandinn … hvur andskotinn.“

Rushiti líktist Ibrahimovic ótrúlega mikið.

Fótboltamaðurinn var hikandi í fyrstu en nokkrum dögum síðar meiddist hann á hné í annað sinn. Meiðslin voru svo slæm að möguleikarnir á því að ná langt í atvinnumennsku höfðu minnkað töluvert. „Ég hugsaði að ef ég gæti ekki unnið við fótbolta, þá yrði ég að finna eitthvað annað. Mig langar að verða ríkur,“ segir Rushiti við The Athletic.

Bíður í göngunum

Á Twitter reikningi íþróttavefsíðunnar Sporf.com er birt klippa úr myndinni en í henni er verið að ræða möguleg félagaskipti Ibrahimovich frá Ajax í Hollandi. Hann stendur og bíður í göngunum eftir að leikurinn byrjar og á meðal leikmanna í göngunum með honum er hollenski landsliðsmaðurinn Wesley Sneijder.

Þegar Zlatan var keyptur yfir til Ajax á sínum tíma, 19 ára gamall, var það hæsta verð sem borgað hafði verið fyrir sænskan leikmann frá upphafi, eða jafnirði sjö milljóna sterlingspunda.

Zlatan átti í fyrstu erfitt með að fóta sig með liðinu vegna ósættis við stjórnendur, en að lokum náði hann að sanna sig.

Klippan er hér fyrir neðan:

Tekjuhæst í Svíþjóð

Það kemur kannski lítið á óvart en myndin fékk gríðarlega góðar móttökur í Svíþjóð og tekjur hennar á frumsýningarhelginni voru meiri en nokkur önnur mynd hafði náð inn síðustu tvö ár þar á undan. Til dæmis var myndin tekjuhærri en stórmyndirnar The Batman og Uncharted á sænskum bíóaðsóknarlistum.

Mest sannfærandi ævisagan

Bókin, I Am Zlatan, eftir David Lagercrantz og Ibrahimovic, var löguð að hvíta tjaldinu af Jakob Beckman. Hún fékk góða dóma þegar hún kom út árið 2013 og kallaði bókmennarýnir breska blaðsins The Guardian, Richard Williams, bókina mögulega mest sannfærandi sjálfsævisögu sem nokkurn tímann hafði komið út eftir fótboltamann.

Kíktu á stiklu og plakat hér fyrir neðan: