Hamfarir á himni og jörðu

Tvær verulega spennandi myndir koma í bíó á morgun, báðar hamfaramyndir en á misstórum skala.

Hamfaramyndin Moonfall er eftir einn þekktasta hamfaramyndaleikstjóra allra tíma, Roland Emmerich, ( Independence Day ) og nú er það tunglið sem hrynur niður úr himnunum og engin önnur en Halle Berry þarf að sprengja það í loft upp til að forða árekstri við Jörðina, með tilheyrandi skelfilegum afleiðingum.

Jackass Forever býður okkur upp á hamfarir af öðrum og minni skala, en stórskemmtilegar engu að síður, enda sýna asnakjálkarnir í myndinni að þeir eru enn í hörkuformi, þó svo að meira en tuttugu ár séu síðan Jackass kom fyrst fyrir sjónir almennings á MTV sjónvarpsstöðinni.

IndieWire ræðir við Peter Travers sem sá um tæknibrellurnar í Moonfall og þar er meðal annars rætt um hvernig hann lætur mánann klessa á Jörðina.

Þetta er í annað skipti sem Travers vinnur með stórmyndameistaranum Emmerich, en sú fyrsta var stríðsmyndin Midway.

1% af massa Jarðarinnar

„Það er rosalega gaman að vinna með Roland. Hann er svo frábær því hann hefur svo skýra mynd af því sem hann vill. Við byrjuðum á Moonfall áður en Midway var búin. Stóra spurningin var hvernig við gætum látið tunglið detta niður. Jafnvel þó að máninn myndin snerta Jörðina þá áttuðum við okkur snemma á því að það yrðu ekki miklar þyngdaraflsafleiðingar. Jafnvel þó svo að hnettirnir snertust, því að tunglið er aðeins 1% af massa Jarðarinnar. Þannig að það þýðir að þó að þeir snertust yrðu ekkert rosalega mikil áhrif. Þannig að snemma í ferlinu þurftum við að finna leið til að gera þetta – og það eru einungis tvær leiðir til þess. Önnur er að gefa tunglingu rosalega orku, en hin og sú raunverulega – og sú betri – er að sprauta inn í það ofboðslegum massa. Þannig að það leysti tvö vandamál sem gætu fengið mánann til að detta … og um leið myndi hann byrja að hafa mikil þyngdaraflsáhrif á Jörðina.“

Asnakjálkar hafa engu gleymt

Jackass hefur verið að fá frábærar viðtökur í forsýningum og segja menn að gengið hafi engu gleymt og asnaskapurinn, þó svo að þetta sé enn margt af því sama, sé enn samt sem áður sprenghlægilegur.

The Guardian gefur myndinni til dæmis fjórar stjörnur af fimm mögulegum og segir meðal annars:

“Tuttugu árum síðar, eftir óteljandi sjónvarpsþætti og hliðarmyndir, kærur og fleira, þá er gengið mætt aftur með enn eina stórsýningu af geggjuðum tilgangslausum og barnalegum ósmekklegheitum, og meðal annars er kynnt til leiks ný kynslóð asnakjálka sem segja í myndinni að þeir hreinlega trúi því ekki að þeir séu lentir í myndaflokknum sem þeir ólust upp með. Síðasta bíómyndin var Jackass 3D árið 2010, sem var hluti af þrívíddaræðinu sem tröllreið kvikmyndaheiminum á sínum tíma, sem nú virðist hafa dáið drottni sínum án þess að einhver sakni þess. En Jackass heldur áfram á fullu stími.”

“Eins og alltaf þá skiptast gaurarnir á um að gera heimskulega og hættulega hluti, á meðan hinir öskra og kalla, hvetja og hlægja eins og hross.”