Þrjár óvenjulegar fjölskyldur

Þrjár nýjar kvikmyndir koma í bíó nú í vikunni. Þær eru nokkuð ólíkar en ættu þó að vekja áhuga margra, enda er umfjöllunarefnið fjölbreytt með fjölskylduþema; bresk konungsfjölskylda, kólumbísk töfrafjölskylda og draugabanafjölskylda.

Ofurkraftar flestra

Encanto segir frá Madrigal fjölskyldunni, óvenjulegri fjölskyldu sem býr á töfrandi stað sem kallast Encanto í Kólumbíu. Hvert einasta barn sem fæðist fær að gjöf ofurkrafta – öll börn nema eitt, Mirabel. En þegar heimili fjölskyldunnar er í hættu, þá gæti Mirabel verið þeirra eina von.

Lagahöfundur myndarinnar, Lin-Manuel Miranda, segir í myndbandi frá Disney að hann hafi haft virkilega gaman af að semja tónlistina.

Flott fjölskylda.

Miranda, sem skaust upp á stjörnuhimininn sem höfundur söngleiksins Hamilton, hefur síðan þá leikið í myndum eins og Star Wars: The Force Awakens og The Rise of Skywalker, en einnig lék hann með Emily Blunt í Mary Poppins Returns.

Encanto er fyrsta verkefni Miranda fyrir Disney teiknimynd.

Sextugasta teiknimyndin

Encanto er sextugasta teiknimynd Disney í fullri lengd og með helstu hlutverk fara m.a. Brooklyn 99 leikkonan Stephanie Beatriz, sem talar fyrir Mirabel, Diane Guerrero (Orange Is The New Black, Doom Patrol), John Leguizamo (Ice Age, John Wick) og Alan Tudyk (Firefly, Rogue One).

Wilmer Valderrama, sem lék í sjónvarpsþáttunum That 70’s Show, er meðal leikenda í myndinni og hann segir að suður-ameríska samfélagið fagni því mjög að þeirra menningu sé gert hátt undir höfði í myndinni. Móðir Valderrama er einmitt frá Kólumbíu.

Fullkominn dagur

Spencer er sannsöguleg kvikmynd um enga aðra en Díönu prinsessu af Wales og segir frá því þegar hún tók þá ákvörðun að skilja við eiginmann sinn, Karl Bretaprins, þegar hún var stödd í jólafríi með konungsfjölskyldunni á Sandringham herrasetrinu í Norfolk á Englandi.

Ef eitthvað er að marka stikluna, þá er þetta hádramatísk mynd og undir öllu hljómar lagið Perfect Day, eða Fullkominn dagur, eftir Lou Reed flutt af stúlknakór.

Díana og Karl voru hjón um tíma.

Blaðamaður New York Times spyr Kristen Stewart, sem leikur Díönu prinsessu, hver hennar fyrstu viðbrögð hafi verið þegar leikstjórinn Pablo Larraín bað hana um að leika prinsessuna.

Stewart segir að hann hafi sagt henni að hann væri handviss um að hún gæti leyst verkefnið vel af hendi. Henni sjálfri hafi fundist hugmyndin fífldjörf og klikkuð því henni hafi í fyrstu ekki þótt hún vera eðilegt og sjálfsagt val í hlutverkið.

Stewart á góðri stund uppi í sveit sem Díana.

Blaðamaðurinn spyr Stewart svo að því hvort leikstjórinn hafi sagt afhverju hann vildi endilega fá hana í hlutverkið og Stewart svarar því til að hann hafi sagt að það hafi verið eitthvað við Díönu sem við munum aldrei vita hvað er. „Þú lætur mér líða þannig,“ sagði hann. „Ég hef séð þig leika og ég veit aldrei alveg hvað þú ert að hugsa,“ sagði hann.

Stewart heldur áfram og segir að henni líði þannig með Diönu einnig. „Þó að maður dragist sterkt að anda hennar og krafti, þá er eitthvað ómótstæðilegt við hana. Mann langar að vera vinur hennar. Mig langar í kapphlaup við hana á hallargöngunum. Mig langar að kynnast börnunum hennar.“

40 ára draugasaga

Persónur og sögusvið Ghostbusters Afterlife hafa lifað með okkur í næstum fjörutíu ár en fyrsta Ghostbusters kvikmyndin var frumsýnd árið 1984, sælla minninga.

Vasaljós kemur sér vel í draugalegum aðstæðum.

Ghostbusters: Afterlife er beint framhald Ghostbusters 2 frá 1989 og gerist sagan þrjátíu árum eftir atburðina í þeirri mynd. Við kynnumst hinni einstæðu móður Callie og tveimur börnum hennar, táningsdregnum Trevor og undrabarninu Phoebe. Eftir að faðir Callie deyr þá drífur fjölskyldan sig til Summerville í Oklohoma, þar sem þau hyggjast hefja nýtt líf.

Afinn er draugabani


Þarna kemur tengingin við gömlu myndirnar því faðir Callie var enginn annar en Egon Spengler, draugabaninn sem leikinn var af Harold Ramis. Ramis var höfundur fyrstu tveggja Ghostbusters myndanna ásamt Dan Aykroyd, sem lék einnig einn af draugabönunum.

Fljótlega kemur í ljós að nýju heimkynni litlu fjölskyldunnar eru á stað þar sem yfirnáttúruleg virkni kraumar undir yfirborðinu. Húsið sem afinn skildi eftir handa þeim er líka einstaklega draugalegt en neðanþilja í húsinu finnur Phoebe einmitt gömlu draugagildru afa síns.

Þess ber að geta að Paul Rudd, sem nýlega var valinn kynþokkafyllsti maður heims af tímaritinu People fer með eitt af aðalhlutverkunum í myndinni.