Nýtt í bíó – Flöskuskeyti frá P

Glæpamyndin Flöskuskeyti frá P verður frumsýnd á föstudaginn næsta, þann 18. nóvember í Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói Akureyri. Flöskuskeyti frá P er þriðja kvikmyndin sem gerð er eftir bókum danska glæpasagnahöfundarins Jussi Adler-Olsen.

flaskepost

Sem fyrr fara þeir Nikolaj Lie Kaas og Fares Fares með hlutverk rannsóknarlögreglumannanna Carls Mørck og Assads, en þeir vinna í svokallaðri Q-deild lögreglunnar við að flokka gömul óleyst sakamál.

Í þetta sinn opna þeir mál um börn sem hurfu sporlaust fyrir nokkrum árum þegar skilaboð frá öðru barni finnast, skrifuð með blóði og um leið örvæntingarfullt ákall um hjálp. Þeir Carl og Assad tengja þessi mál saman og eru þar með komnir á spor fjöldamorðingja sem enn gengur laus og liðugur, e.t.v. með enn meira á samviskunni …

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Leikstjórn: Hans Petter Moland
Leikarar: Fares Fares, Pal Sverre Valheim Hagen, Nikolaj Lie Kaas.

Áhugaverðir punktar til gamans:

-Flöskuskeyti frá P er þriðja myndin sem gerð er eftir bókum danska glæpasöguhöfundarins Jussis Adler-Olsen, en sú fyrsta, Konan í búrinu, var frumsýnd fyrir þremur árum og sú seinni, Veiðimennirnir, í fyrra. Báðar fengu þessar myndir afbragðsdóma og mikla aðsókn og t.a.m. sló Veiðimennirnir aðsóknarmet í dönskum kvikmyndahúsum. Það met hefur nú verið slegið á ný af þessari mynd, Flöskuskeyti frá P, sem er nú aðsóknarmesta danska mynd á opnunarhelgi með 154.215 miða selda á þremur dögum.

-Leikstjóri myndarinnar, hinn norski Hans Petter Moland, hefur hlotið ótal verðlaun og viðurkenningar fyrir myndir sínar í gegnum árin en af þeim má t.d. nefna Aberdeen, The Beautiful Country, En
ganske snill mann og Kraftidioten sem hann sendi frá sér árið 2014.

– Jussi Adler-Olsen hefur nú sent frá sér fimm bækur um þá Carl Mørck og Assad og má fastlega búast við að hinar tvær, Stúlkan í trénu og Marco-áhrifin, verði líka kvikmyndaðar. Þess má geta að Jussi hefur sagst ætla að skrifa í allt tíu bækur um þá félaga.

skeyti