Framhaldið af 300 fjölgar leikurum

Framhaldið af einni óvæntustu mynd ársins 2007 er að komast í gírinn, og nú nýlega hafa leikarar verið að bætast í stór hlutverk. Við sögðum frá því í desember að Eva Green mun hreppa titilhlutverk Artemisiu, sem var ráðgjafi Xerxes í orrustunni við Artemisium, og er sögð í myndinni eiga að eggja honum út í bardagann þar. Óhætt er að segja að hún sé frægasta nafnið sem bæst hefur á kreditlistann.

Sullivan Stapleton (sem sennilega er þekktastur fyrir leik sinn í áströlsku glæpamyndinni Animal Kingdom) mun fara með hlutverk Þemistóklesar, einum leiðtoga Aþeninga í baráttunni við Persa. Hinn eftirminnilegi  Rodrigo Santoro mun snúa aftur í hlutverk Xerxesar, en við því hafði verið búist að hlutverkinu yrði jafnvel endurúthlutað. Þá mun Jamie Blackley (London Boulevard) leika ungmenni að nafni Calisto, er vill fylgja í fótspor föður síns (hver var það? Ég veit ekki) og vera hetjulegur stríðsmaður. Þemistókles og Calisto eru sögð vera stærstu hlutverk myndarinnar. Talað hefur verið um að Lena Heady og Gerard Butler gætu látið sjá sig í atriðum sem gerast á undan atburðum 300, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Spurningin sem vaknaði hjá mér við það að skrifa þessa frétt var: hefur einhver áhuga á framhaldi af 300? Það eru fimm ár liðin síðan að fyrsta myndin kom út, og ég hef ekki heyrt marga kvarta yfir biðinni. Persónulega fyndist mér reyndar gaman að sjá mynd byggða á Persastríðunum sem tæki mannkynssöguna sæmilega alvarlega, en ég hef á tilfinningunni að 300: Battle of Artemisia sé ekki að fara að gera það.