Fjórða Transformers til framtíðar

Vangaveltur eru hafnar um hvernig fjórða Transformers myndin muni verða, en ljóst er að nokkrar breytingar verða í leikaraliðinu, Shia LaBeouf farinn og Mark Wahlberg, kominn í staðinn, svo eitthvað sé nefnt.

Leikstjórinn Michael Bay ræddi nýlega við fréttamiðilinn TMZ, og sagði í spjallinu að myndin myndi gerast fjórum árum eftir að Transformers: Dark of the Moon gerðist. „Myndin mun halda áfram fjórum árum eftir að árásin var gerð á Chicago, sem var í síðustu mynd,“ sagði Bay í viðtalinu. „Hún mun halda sama þræði, en fer í algjörlega nýjar áttir.“

Í júní sl. sagði Bay að myndin yrði hófstilltari en mynd númer þrjú og hugsanlega fá minna af peningum til að vinna úr. ( sem kemur á óvart þar sem mynd númer 3 þénaði meira en einn milljarð Bandaríkjadala um heim allan )

Í september sagði Bay síðan að hugsanlega myndi sagan gerast úti í geimnum.

Framleiðsla myndarinnar hefst næsta vor, 2013, og kemur í bíó 27. júní, 2014.